Kínverjar eyða mun meiru í Finnlandi en Rússar

helsinki yfir

Sífellt veikari rúbla og versnandi efnahagsástand í Rússlandi hefur dregið mjög úr ferðagleði Rússa. Ferðaþjónustan hjá nágrönnum þeirra í vestri finnur fyrir því. Sífellt veikari rúbla og versnandi efnahagsástand í Rússlandi hefur dregið mjög úr ferðagleði Rússa. Ferðaþjónustan hjá nágrönnum þeirra í vestri finnur fyrir því. 
Kínverskum ferðamönnum fjölgar ekki bara hér á landi um tugi prósenta á milli ára. Í Finnlandi hefur það sama gerst og það sem af er ári hefur kínverskum hótelgestum í Helsinki fjölgað um 41 prósent. Samdrátturinn í fjölda rússneskra hótelgesta í borginni er hlutfallslega jafn mikill en þeir eru samt sem áður fjölmennasta þjóðin í flóru ferðamanna í Finnlandi.  

Kínverjar eyða mun meiru

Það er ekki nóg með að Kínverjar komi nú í meira mæli til Helsinki því samkvæmt könnunum þá eru þeir mun verðmætari ferðamenn en Rússar. Að jafnaði kaupir kínverskur ferðamaður vörur og þjónustu í Finnlandi fyrir um 53 þúsund íslenskar krónur en Rússarnir fyrir 23 þúsund. Munurinn er því umtalsverður og samkvæmt tilkynningu frá ferðamálaráði Helsinki þá voru tekjurnar af kínverskum ferðamönnum, fyrstu níu mánuði ársins, um 19 milljarðar króna en velta Rússa var um 12,5 milljarðar króna. 

Óvíst hvort Rússar haldi toppsætinu

Sem fyrr segir eru Rússar fjölmennstir í hópi ferðamanna í Finnlandi en vegna þess hve mikill samdráttur hefur orðið í ferðalögum þeirra til útlanda síðustu misseri þá gæti farið svo að í ár verði þýskir ferðamenn fjölmennastir. Það er hins vegar of snemmt að segja til um það því yfir áramót fjölmenna Rússar alla jafna til Finnlands og er búist við að um 36 þúsund rússneskir ferðamenn komi til Finnlands í lok desember. Það er álíka fjöldi og í fyrra en nokkru minna en árin þar á undan.
Frá Keflavíkurflugvelli er flogið allt árið um kring til Helsinki á vegum Icelandair.