Leggja lokahönd á útboð á flugmiðum stjórnarráðsins

flugtak 860 a

Síðustu mánuði hefur staðið yfir undirbúningur á útboði á farmiðakaupum allra íslenskra ráðuneyta. WOW gæti orðið eina lággjaldaflugið sem skilar inn tilboði. Síðustu mánuði hefur staðið yfir undirbúningur á útboði á farmiðakaupum allra íslenskra ráðuneyta. WOW gæti orðið eina lággjaldaflugið sem skilar inn tilboði.
Nú eru nærri fimm ár liðin frá því að hið opinbera leitaði síðast tilboða í kaup sín á flugsætum fyrir ríkisstarfsmenn. Unnið hefur verið að nýju útboði frá því lok sumars en í apríl sl. féll úrskurður kærunefndar útboðsmála þar sem fjármálaráðuneytinu var gert að bjóða út innkaup ríkisins á flugmiðum til og frá Íslandi. Samkvæmt nýju svari ráðuneytisins til Túrista er vonast er til að útboðið verði kynnt fyrir áramótin en upphaflega stóð til að auglýsa það í haust.

Áhugi lággjaldaflugfélaga líklega takmarkaður

Forsvarsmenn Félags atvinnurekenda og WOW air hefur lengi talað fyrir nýju útboði og í tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér í byrjun mánaðar kemur fram að árlega verji íslenska ríkið yfir 900 milljónum króna í kaup á ferðaþjónustu og gera mætti ráð fyrir að töluverður hluti þessa kostnaðar væri vegna farmiðakaupa. „Ríki og sveitarfélög geta sparað hundruðir milljóna króna á ári með því að kaupa flugmiða hjá WOW air eða erlendum lággjaldaflugfélögum,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Það er hins vegar ekki víst að erlend lággjaldaflugfélög muni taka þátt í tilvonandi útboði samkvæmt athugun Túrista meðal forsvarsmanna fjölda erlendra flugfélaga. Ein af ástæðunum er sú að lággjaldaflugfélög selja ekki farmiða með tengiflugi og bjóða farþegum heldur ekki að innrita farangur ef þeir þurfa í framhaldsflug. Það á til dæmis við um farþega WOW air og í nýlegu útboði danska ríkisins á farmiðakaupum tóku til að mynda easyJet og Ryanair ekki þátt þrátt fyrir að vera mjög umsvifamikil í millilandaflugi frá Danmörku. 
Áhuginn á tilvonandi útboði íslenska stjórnarráðsins er hins vegar töluverður meðal þeirra hefðbundnu flugfélaga sem hingað fljúga allt árið.