Netgíró í stað bókunargjalds WOW

Þó WOW auglýsi farmiða á 7.999 krónur þá leggst 999 krónar bókunargjald við allar pantanir á heimasíðu félagsins. Nú er hins vegar hægt að lækka gjaldið niður í 195 krónur.

wow netgiro a

Aukagjöld flugfélaga eru mjög mismunandi. Sum rukka fyrir farangur, val á sætum og eins eru kreditkortagjöld algeng meðal lággjaldaflugfélaga. Allt eru þetta þóknanir sem hægt er að komast hjá því að greiða, til að mynda með því að ferðast létt og borga með debetkorti. Bókunargjald WOW air er hins vegar sérstakt þar sem upphæðin bætist við hverja einustu pöntun og þar með er ekki hægt að fá farmiða á því verði sem félagið auglýsir. Neytendastofa gerði athugasemdir við þetta fyrirkomulag í haust, líkt og Túristi greindi frá, en niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.

Engin ferðatrygging

Nú geta farþegar WOW hins vegar greitt farmiðanana með Netgíró og þannig komist hjá bókunargjaldi félagsins. Þóknun Netgíró er hins vegar 195 krónur en farþegar sem velja þennan nýja kost eru þar af leiðandi ekki með ferðatryggingu sem oft fylgir kreditkortagreiðslum. Ferðatryggingar eru hins vegar oft hluti af heimilistryggingum en samt sem áður er vissara fyrir flugfarþega að kanna hvernig þau mál standa áður en þeir greiða flugmiða með Netgíró.

WOW fær greitt fyrr

„Við erum að bjóða viðskiptavinum okkar nýja greiðsluleið og veitum þeim sem nýta sér hana á netinu afslátt. Það tíðkast í flugrekstri að flugfélög fái ekki greitt fyrr en flugið hefur verið flogið ef greitt er með kreditkorti en ef greitt er með Netgíró þá fær WOW air greiðslu innan 14 daga. Með því að fá greiðslu fyrr þá myndast sparnaður í rekstri WOW air og viljum við skila þeim sparnaði beint til farþega okkar. Við munum halda áfram að þróa leiðir til þess að geta ávallt boðið farþegum okkar lægsta verðið,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, um hið nýja greiðslufyrirkomulag.

Bresku félögin urðu að breyta skilmálum

Fyrir fjórum árum síðan gerðu bresk yfirvöld athugasemd við auglýsingar lággjaldaflugfélaganna easyJet og Ryanair þar sem bæði félög bættu bókunargjaldi við auglýst verð og einnig þau fargjöld sem sýnd voru í netbókunarvél. Í framhaldi gerðu bæði félög breytingar í takt við óskir yfirvalda. Í dag greiða farþegar félaganna hins vegar aukaþóknun ef borgað er með kreditkorti.