Ódýrustu flugmiðarnir í lok janúar og um páskana

cph amalienborg ty stange

Hvað kostar farið til London, Kaupmannahafnar og Óslóar eftir fjórar og tólf vikur? Farmiðaverðið til London, Kaupmannahafnar og Óslóar rokkar til og frá milli ára og félögin skiptast á að bjóða best á þessum flugleiðum.
Ef stefnan er sett á höfuðborgir Danmerkur og Noregs í lok næsta mánaðar þá kostar farið þangað minna í dag en það hefur kostað á sama tíma síðustu ár. Hins vegar kosta ódýrustu farmiðarnir með easyJet og WOW til höfuðborgar Bretlands meira núna en á sama tíma í fyrra. Icelandair býður lægstu fargjöldin þangað í lok janúar eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan.

SAS býður betur en þau íslensku í Kaupmannahöfn

Um langt skeið hafa aðeins íslensk flugfélög boðið upp á áætlunarflug milli Íslands og Kaupmannahafnar en á því verður breyting í lok mars þegar SAS hefur flug hingað á ný frá flugvellinum við Kastrup en félagið lagði niður þessa flugleið fyrir um tveimur áratugum síðan. Af fargjöldum skandinavíska flugfélagsins að dæma þá ætla forsvarsmenn félagsins að veita íslensku félögunum harða samkeppni og til að mynda er SAS ódýrasti kosturinn ef hugurinn stefnir til Kaupmannahafnar í páskavikunni. Icelandair er ögn dýrari en farið hjá WOW er um 5 þúsund krónum hærra. Sem fyrr býður Norwegian lægstu fargjöldin til Óslóar en easyJet er eina félagið með flugmiða til London í páskavikunni á undir 30 þúsund krónur eins og súluritin sýna.