Svissneskum ferðamönnum fækkaði um meira en þriðjung

erlendir ferdamenn

Með vetrarflugi hingað frá Sviss fjölgaði þarlendum ferðamönnum hér á landi umtalsvert. Þeim fækkaði hins vegar hratt eftir að vetrarflugið milli Íslands og Sviss lagðist af og íslensk fyrirtæki fara á mis við háar upphæðir Með vetrarflugi hingað frá Sviss fjölgaði þarlendum ferðamönnum hér á landi umtalsvert. Þeim fækkaði hins vegar hratt eftir að vetrarflugið milli Íslands og Sviss lagðist af í lok október.
Síðasta vetur flugu vélar easyJet tvisvar í viku frá svissnesku borgunum Basel og Genf til Íslands en áður hafði áætlunarflug milli landanna tveggja takmarkast við aðal ferðamannamánuðina. Þessar nýju vetrarferðir urðu til þess að fjöldi svissneskra túrista hér á landi þrefaldaðist síðastliðinn vetur. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu ákváðu stjórnendur easyJet að gera hlé á flugi sínu milli Sviss og Íslands í lokum október og fram í febrúar á næsta ári. 

Verðmætur hópur

Það voru því engar áætlunarferðir í boði hingað frá Sviss í nóvember og það hafði greinilega mikil áhrif á ferðir Svisslendinga til Íslands því gestum þaðan fækkaði um 36,8 prósent í síðasta mánuði í samanburði við nóvember 2014. Þá flugu héðan 764 Svisslendingar en þeir voru núna 483 samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Til samanburðar voru 81.600 erlendir ferðamenn hér í nóvember og hlutfall Svisslendinga er því ekki ýkja hátt. Hins vegar eru þeir mjög verðmætir ferðamenn því engin þjóð eyðir eins miklum peningum hér þegar litið er til kreditkortaveltu. Hver Svisslendingur eyddi að jafnaði um 203 þúsund krónum á meðan á dvöl hans stóð hér á landi fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins. Það er nærri tvöfalt meira en ferðamenn eyða hér að jafnaði. 

Fara á mis við 268 milljónir

Ef reiknað er með meðalkreditkortavelta Svisslendinga haldist óbreytt og að samdráttur í Íslandsferðum þeirra verði álíka í desember, janúar og febrúar og hann var nú í nóvember þá má áætla að íslensk fyrirtæki verði af um 268 milljónum í sölu þessa fjóra mánuði sem flugið til Sviss liggur niðri. Það eru þá aðallega gististaðir, ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir og veitingastaðir. Eingöngu í nóvember hefur tekjutapið numið um 57 milljónum samkvæmt útreikningum Túrista.
TENGDAR GREINAR: BJÓÐA ÓVÆNT UPP Á HRÆÓDÝR SKÍÐAFLUG