Tvöfalt fleiri ferðir til Washington

washington yfir

Það voru farnar 1.040 áætlunarferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til útlanda í síðasta mánuði sem er fjórðungs aukning frá því í fyrra. Mikil viðbót á ferðum til nokkurra borga. Það voru farnar 1.040 áætlunarferðir frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til útlanda í síðasta mánuði sem er fjórðungs aukning frá því í fyrra. Mikil viðbót á ferðum til nokkurra borga.
Að jafnaði voru farnar sjö ferðir á dag héðan til London í síðasta mánuði og borgin er sem fyrr sá áfangastaður sem langoftast er flogið er til frá Keflavíkurflugvelli. Þangað flaug fimmta hver vél sem tók á loft frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nóvember en til Kaupmannahafnar, næst vinsælasta staðarins, voru ferðirnar um þrjár á dag. Fjöldi ferða til Óslóar var aðeins minni eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. 

WOW breytir myndinni vestanhafs

Í nóvember í fyrra var New York í fjórða sæti á listanum yfir þær borgir sem oftast var flogið til frá Keflavíkurflugvelli en með tilkomu áætlunarflugs WOW air til Boston hefur flugferðunum þangað fjölgað um 60 prósent á milli nóvembermánaða og borgin komin upp fyrir New York á listanum. Mest varð aukningin hins vegar á ferðum til höfuðborgar Bandaríkjanna því þangað voru farnar 43 ferðir. WOW, sem hóf að fljúga þangað í vor, fór samtals 22 sinnum til Baltimore-Washington flugvallar og vélar Icelandair lentu tuttugu og einu sinni á Washington Dulles. WOW bauð s.s. upp á fleiri ferðir til höfuðborgarinnar en Icelandair. 
Eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan þá hefur ferðunum til nokkurra áfangastaða fjölga mjög mikið milli nóvembermánaða.