Ætlar ekki að láta íslenskar aðstæður hamla vexti WOW

wowair freyja

Það bendir allt til að stærð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar takmarki möguleika WOW air og forstjóri félagsins segist því íhuga að finna aðra heimahöfn fyrir starfsemi félagsins. Það bendir allt til að stærð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar takmarki möguleika WOW air og forstjóri félagsins segist því íhuga að finna aðra heimahöfn fyrir starfsemi félagsins. 
WOW air getur ekki beðið í fimm ár í viðbót eftir því að stækkun Keflavíkurflugvallar verði að veruleika og því gæti þurft að flytja hluta af starfsemi félagsins á annan flugvöll til að nýta þau tækifæri sem félagið hefur. Þetta kemur fram í nýju viðtali við Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, í flugritinu Air Transport World. Aðspurður um þessar þreifingar segir Skúli í svari til Túrista að allt bendi til að Keflavíkurflugvöllur nái ekki að halda í við vaxtaráform WOW air á næstu árum. „Við erum að lenda í þrengingum strax á næsta ári þegar við áætlum að fjölga farþegum okkar úr tæpum 750 þúsund í eina og hálfa milljón. Meðal annars með tilkomu nýrra áfangastaða eins og Los Angeles og San Francisco og nýjum Airbus A330 vélum.“ Árið 2017 gerir Skúli ráð fyrir að farþegar félagsins verði orðnir 2,5 milljónir og hann segist hafa verulegar áhyggjur af því að Keflavíkurflugvöllur geti tekið á móti slíkum fjölda. Bendir hann á að áætlun forsvarsmanna Isavia geri ráð fyrir að samtals fari 6,2 milljónir farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2018. „Miðað við okkar stækkunar áform og annarra þá tel ég að farþegafjöldinn verði að minnsta kosti 8 miljónir strax á þarnæsta ári, svo framarlega sem Keflavíkurflugvöllur getur tekið við þeim fjölda. Áætlun Ísavia gerir hinsvegar ráð fyrir að farþegafjöldinn yrði ekki 8 milljónir ekki fyrr en 2022 eða 5 árum seinna. Því er ljóst að það er gríðarlega mikilvægt að endurskoða þau plön hið fyrsta svo að framkvæmdir geti hafist strax við að taka á móti slíkri stækkun. Ef ekki mun ferðaþjónustan og ríkið verða af tugi ef ekki hundruði miljarða á ári næstu fimm til sex árin.“

Mikil tækifæri í dag

Vöxtur WOW air hefur verið mjög hraður síðustu ár en félagið hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna í vor og áformar að fljúga til að minnsta kosti sex borga í N-Ameríku á næsta ári. Skúli segist finna fyrir gríðarlegum áhuga og þörf á öflugu lággjaldaflugi yfir Atlantshafið og það tækifæri ætli félagið að nýta sér. „Ísland er í dauðafæri til að nýta stöðu sína og byggja hér upp alþjóðlega flughöfn á heimsvísu. Við viljum helst af öllu halda áfram að byggja upp aðstöðu okkar á Íslandi og að Keflavíkurflugvöllur verði okkar heimavöllur. Að sama skapi er ljóst að við getum ekki látið íslenskar aðstæður hamla frekari vexti félagsins og erum að skoða það mjög alvarlega að setja upp nýja sjálfstæða starfsstöð (Hub), óháða Íslandi, til að reka samhliða starfsemi okkar hér á landi.“ Skúli bætir því við að forsvarsmenn norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian séu „komnir á bragðið“ og séu með mjög metnaðarfull áform á sama markaði og WOW, þ.e. í lággjaldaflugi milli N-Ameríku og Evrópu. „Við verðum að halda áfram að stækka ört til að vera samkeppnisfær, til lengri tíma litið, á þeim markaði og getum því ekki beðið eftir því að Keflavíkurflugvöllur eða íslensk pólitík átti sig á tækifærinu sem blasir við.“ Aðspurður um hvaða flughafnir koma til greina sem ný heimahöfn WOW air segir Skúli að ekki sé tímabært að ræða það. 

Stóriðjuvæðingin galin tímaskekkja

Nú eru uppi áform um að reisa tvær kísilmálmverksmiðjur í Helguvík við Reykjanesbæ en Skúli gagnrýnir þær áætlanir og íhlutun ráðamanna í þeim verkefnum. „Það er óneitanlega sorglegt að horfa upp á það að á sama tíma og enn er verið að vandræðast með stækkun flugvallarins þá er ríkið og Reykjanesbær að lofa miljarða styrkjum, lægri tekjuskatti, afslætti af tryggingargjöldum og fleiri fyrirgreiðslum til stóriðjuverkefna á Suðurnesjum og annarsstaðars sem skilja ekkert eftir sig en hafa verið réttlætt með því að segja þau skapi störf. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er komið niður í 2.2% og ljóst að það þarf að manna að minnsta kosti 1.500 störf strax á næsta ári til að halda í við stækkunina í ferðamannageiranum. Að niðurgreiða stóriðjuvæðinguna á þeim forsendum að það sé atvinnuskapandi er einfaldlega galið og algjör tímaskekkja.“