30 prósent farþega á Keflavíkurflugvelli í tengiflug

fle 860

Síðasta ár var metár á Keflavíkurflugvelli því farþegar hafa aldrei verið svo margir. Hlutfall skiptifarþega helst óbreytt milli ára. Síðasta ár var metár á Keflavíkurflugvelli því farþegar hafa aldrei verið svo margir. Hlutfall skiptifarþega helst óbreytt milli ára.
4,85 milljónir farþega flugu til og frá Keflavíkurflugvelli á síðasta ári og fjölgaði þeim um ríflega fjórðung frá árinu 2014. Flestir voru á ferðinni júlí eða um 663 þúsund samkvæmt tilkynningu frá Isavia. Farþegar sem aðeins millilentu hér á landi á leið sinni milli N-Ameríku og Evrópu voru 1.464.878 talsins eða 30,2 prósent af heildinni. Til samanburðar er vægi þessa farþegahóps 22,5% á Kaupmannahafnarflugvelli, stærstu flughöfn Norðurlanda.

Um helmingur farþega Icelandair í tengiflug

Hlutfall skiptifarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 29,7 prósent í fyrra og hélst það því nær óbreytt á síðasta ári þrátt fyrir að WOW air hafi þá í fyrsta sinn boðið upp á tengiflug milli heimsálfanna með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Það er vísbending um að hlutfall tengifarþega hjá WOW sé álíka hátt og hjá Icelandair en um helmingur farþega þess félags millilendir aðeins hér á landi á leið sinni yfir hafið. 

Miklar framkvæmdir á teikniborðinu

Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 6,25 milljón farþegar fari um flugvöllinn í ár en til samanburðar voru þeir um 2 milljónir árið 2010 þegar Isavia var stofnað. Um þessar mundir er verið að stækka flugstöðina um 16 þúsund fermetra, þar af verða níu þúsund fermetrar teknir í gagnið í ár. Í þróunaráætlun flugvallarins er gert ráð fyrir að flugstöðin verði 140 þúsund fermetrar að stærð árið 2032, sem er ríflega tvöföldun á núverandi mannvirki.

Gæti tekið við 10 milljónum farþega

Mestu álagstímarnir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru þeir tímar sem íslensku félögin tvö nota til þess að tengja flug milli Evrópu og Norður-Ameríku en tímarnir á milli þessara álagspunkta eru vannýttir. Forsvarsmenn Isavia benda á að með betri nýtingu flugvallarins og aukningu á milli aðalálagstíma sólarhringsins gæti flugvöllurinn tekið við hátt í 10 milljónum farþega á ári hverju þegar framkvæmdunum sem nú standa yfir er lokið. „Nú þurfum við, í samvinnu við flugfélögin, að leita leiða til að nýta núverandi mannvirki betur svo stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustan, geti haldið áfram að vaxa næstu árin,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, í tilkynningu.