Ferðamönnum fjölgaði meira en áður

erlendir ferdamenn

Bandaríkjamenn eru á ný fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og nærri tvöfalt fleiri Kínverjar heimsóttu okkur í fyrra en árið á undan. Vægi frændþjóðanna minnkar hins vegar. Bandaríkjamenn eru á ný fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og nærri tvöfalt fleiri Kínverjar heimsóttu okkur í fyrra en árið á undan. Vægi frændþjóðanna minnkar hins vegar.
Það flugu 1.261.938 erlendir ferðamenn frá landinu á síðasta ári og fjölgaði þeim um 293 þúsund frá árinu á undan. Til samanburðar þá komu 309 þúsund ferðamenn til Íslands allt árið 2003 samkvæmt talningum Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Aukningin í fyrra nam um 30 prósentum sem er hlutfallslega meiri aukning en árin á undan. Í fyrra fjölgaði ferðamönnum um nærri fjórðung en á árunum 2010 til 2013 nam aukningin um fimmtungi á milli ára. Á árunum eftir hrun stóð fjöldinn hins vegar í stað á milli ára eða drógst lítillega saman eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan. Þess ber að geta að ferðamenn sem koma hingað með skipum og í gegnum aðra flugvelli eru ekki taldir með í þessum tölum.

Bandaríkjamenn fjölmennastir

Í fyrra voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi á ný en síðustu tvö ár hafa Bretar verið í efsta sætinu. Bandarískum túristum fjölgaði um 59 prósent í fyrra en framboð á flugi héðan til Bandaríkjanna jókst verulega á síðasta ári og það stefnir í enn meiri viðbót á þessu ári með beinu flugi WOW air til Kaliforníu, flugi Icelandair til Chicago og eins mun Delta flugfélagið hefja áætlunarflug hingað frá Minneapolis.

Fjöldi norrænna ferðamenna stendur í stað

Það voru ekki bara Bandaríkjamenn sem komu hingað í auknum mæli í fyrra því breskum, pólskum og svissneskum ferðamönnum fjölgaði um þriðjung. Mesta stökkið tóku hins vegar Kínverjar en fjöldi þeirra nærri tvöfaldaðist. Hins vegar stóð fjöldi norrænna ferðamanna í stað, þeim fjölgaði um aðeins 0,9 prósent í fyrra. Reyndar fjölgaði þeim lítillega frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi en fækkunin frá Noregi dregur meðaltalið fyrir Norðurlönd niður. Hlutdeild ferðamanna frá þessum fjórum löndum var því lægra í fyrra en árin á undan. Í fyrra voru þeir um 13 prósent af heildinni en vægi þeirra var um fjórðungur áður fyrr eins og línuritið hér fyrir neðan sýnir.