Ögn meiri munur á sumarfargjöldum Icelandair og WOW til Montreal

montreal stor

Það eru fá eða engin dæmi um að tvö íslensk flugfélög hefji áætlunarflug til sömu borgar á sama tíma en það mun hins vegar gerast í vor. Túristi hefur fylgst með þróun fargjalda á þessari einstöku leið. Það eru fá eða engin dæmi um að tvö íslensk flugfélög hefji áætlunarflug til sömu borgar á sama tíma en það mun hins vegar gerast í vor. Túristi hefur fylgst með þróun fargjalda á þessari einstöku flugleið.
Í dag eru Icelandair og WOW air í samkeppni í flugi til tólf erlendra áfangastaða. Á öllum þessum flugleiðum nema einni hefur WOW air komið inn á markaðinn á eftir Icelandair enda miklu yngra flugfélag. Sá áfangastaður sem sker sig úr er Montreal í hinum frönskumælandi hluta Kanada. Þangað fer WOW air jómfrúarferð sína þann 12. maí nk. en fyrsta ferð Icelandair er 19. maí. Bæði félög ætla að bjóða upp á fjórar ferðir í viku, WOW allt árið um kring en Icelandair frá vori og fram á haust. 

Um 200 flugferðir til og frá Montreal í sumar

Bæði félögin stíga sem sagt sín fyrstu skref í Montral á sama tíma og með samskonar flugáætlun. Það er því áhugavert að bera saman fargjöldin á þessari leið og það hefur Túristi gert í tvígang og reiknað út meðalverð þeirra ríflega tvö hundruð flugferða sem Icelandair og WOW air bjóða upp á til og frá Montreal í júní, júlí og ágúst. Í könnuninni í október var munurinn á meðalverðinu aðeins 0,24 prósent. Hjá Icelandair kostaði farið, báðar leiðir, að jafnaði 74.281 kr. hjá Icelandair en 74.101 kr. hjá WOW air. Í dag hefur bilið á milli félaganna breikkað og nemur munurinn 5,2 prósentum. Meðalverð Icelandair hefur lækkað niður í 71.765 krónur en hækkað upp í 75.692 kr. hjá WOW. Farþegar WOW geta hins vegar sparað sér um 10 þúsund krónur með því að ferðast aðeins með léttan handfarangur. Eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan þá munar nokkur á fargjöldum milli mánaða, meðaltalið í júlí er t.d. hærra en í júní og ágúst.  

Mismunandi takmarkanir og aukagjöld

Hjá Icelandair hefur dvalartími áhrif á fargjöldin og í könnuninni var reiknað með a.m.k. vikudvöl og sætum á ódýrasta farrými. Styttri ferðir kosta oftast nokkru meira. Hafa ber í huga að farþegar Icelandair mega innrita tvær töskur sér að kostnaðarlausu en farþegar WOW borga fyrir þá þjónustu. Hámarksþyngd handfarangurs hjá Icelandair er 10 kíló en hjá WOW þarf að borga sérstaklega fyrir handfarangur sem er þyngri en fimm kíló. Hluti af veitingunum um borð er innifalinn hjá Icelandair en ekki hjá WOW.