Ódýrast að fljúga í byrjun hverrar viku til San Francisco og Los Angeles

los angeles joe cooke

Eftir fimm mánuði fer WOW air jómfrúarferðir sínar til San Francisco og Los Angeles. Flugið til borganna er langt og það hefur áhrif á töskugjöldin.
Í byrjun vetrar tilkynntu forsvarsmenn WOW air að félagið myndi bjóða upp á áætlunarflug til borganna San Francisco og Los Angeles frá og með næsta sumri. Til fyrrnefndu borgarinnar verður flogið fimm sinnum í viku en fjórum sinnum til Los Angeles. WOW air mun bæta þremur nýlegum Airbus 330-300 breiðþotum við flugflota sinn til að sinna þessum nýju flugleiðum.

Allir á sama farrými

Það er stórt skref fyrir hvaða flugfélag sem er að bæta tveimur stórborgum á vesturströnd Bandaríkjanna við leiðakerfi sitt og leit að hliðstæðum dæmum í íslenskri flugsögu um jafn mikla aukningu á umsvifum flugfélags á einu bretti. Forsvarsmenn WOW hafa til að mynda bent á að listaverð á nýrri Airbus A330-300 er um 32 milljarðar íslenskra króna en tvær af vélunum sem WOW air tekur í notkun hafa ekki verið notaðar af öðru flugfélagi. Þriðja þotan var áður hjá Singapore Airlines. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, verður innréttingum vélanna þriggja breytt fyrir WOW air þannig að þær verði aðeins með eitt farrými og því ekki í boði að kaupa sæti á viðskipta- eða fyrsta farrými. Airbus breiðþoturnar verða stærstu þotur sem notaðar hafa verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi.

Ódýrast á þriðjudögum og miðvikudögum

Samkvæmt heimasíðu WOW kosta ódýrustu farmiðarnir, aðra leiðina, til Kaliforníu 19.999 krónur og við það bætist bókunargjald. Í dag eru þessi lægstu fargjöld aðeins í boði á miðvikudagsbrottförum til San Francisco í júní og svo aftur í haust. Ódýrustu ferðirnar til Los Angeles eru hins vegar á mánudögum og þriðjudögum samkvæmt athugun Túrista. Annars kostar flugleggurinn oftast á bilinu 40 til 50 þúsund krónur í sumar.

Hærri töskugjöld 

Flugið til stórborganna tveggja í Kaliforníu frá Keflavíkurflugvelli mun taka um 10 tíma. Lagt er í hann rétt fyrir fjögur seinnipartinn og lent í Bandaríkjunum skömmu fyrir sex. Á heimleiðinni er áætluð koma til Íslands rétt fyrir fimm að morgni. Líkt og í öllu öðru flugi WOW air þá borga farþegar fyrir farangur, bæði þann sem er innritaður og líka handtöskur sem eru þyngri en 5 kíló. Hingað til hefur töskugjald WOW verið 3.999 krónur fyrir stutt flug en 4.999 krónur fyrir þau lengri, til að mynda til Boston og Washington. Þeir sem fljúga hins vegar með WOW til Kaliforníu verða að greiða 6.999 krónur fyrir að innritaðan farangur, aðra leið og 4.999 krónur ef þeir vilja ferðast með þyngri handfarangur. Auk þess þarf að greiða fyrir val á sætum og allar veitingar um borð.
VILTU FÁ TÚRISTAGREINAR OG FERÐATILBOÐ Í PÓSTHÓLFIÐ ÞITT? – SMELLTU HÉR TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU Í PARÍS