Fargjaldið á Parísarleikinn á EM hefur þrefaldast frá áramótum

paris Ile de la cite

Í byrjun árs var hægt að bóka flug til Parísar í júní á rúmar 10 þúsund krónur en nú er staðan gjörbreytt. Í byrjun árs var hægt að bóka flug til Parísar í júní á rúmar 10 þúsund krónur en nú er staðan gjörbreytt.
Franska lággjaldaflugfélagið Transavia hefur síðustu ár flogið nokkrar ferðir í viku milli Parísar og Íslands yfir sumarmánuðina. Í nóvember setti félagið Íslandsflug sitt fyrir þetta ár í sölu en ferðirnar í júní, þegar Evrópumótið í knattspyrnu fer fram í Frakklandi, voru hins vegar ekki bókanlegar þá. Sala á þeim hófst um áramót og líkt og Túristi greindi frá þá kostuðu allar brottfarirnar í júní annað hvort 10.700 krónur eða 12.100 krónur (76 eða 86 evrur). Þeir sem þá keyptu far til Parísar í kringum leik Íslands þar í borg 22. júní komust til dæmis báðar leiðir fyrir innan við 29 þúsund krónur. Núna eru þessi ódýrustu fargjöld ekki lengur í boði og farmiðarnir hækkað verulega í verði. Í dag kostar til að mynda farmiði til Parísar með Transavia, dagana 21.- 24. júní, 89.350 krónur sem er þrefalt hærra verð en þann 4. janúar síðastliðinn. 

Ódýrara að fara í gegnum Brussel

Icelandair og WOW air fljúga allt árið um kring héðan til Parísar en ódýrustu farmiðar félaganna í kringum leikina á EM kosta líka á bilinu 70 til 100 þúsund krónur. Hins vegar má finna flugmiða með Icelandair til Brussel dagana fyrir leikinn þann 22.júní á um 23 þúsund krónur. Á milli borganna tveggja gengur hraðlest nokkrum sinnum á dag og kostar farið um 4100 krónur og tekur ferðalagið einn og hálfan tíma. Heimflugin frá Brussel eru mörgum tilfellum nokkru ódýrari en frá París. 

París í haust

Síðustu ár hefur Transavia aðeins flogið hingað til lands fram í byrjun september en á því verður breyting í ár þegar síðasta ferðin verður farin í lok október. Brottfarir félagsins frá Keflavíkurflugvelli eru hins vegar allar eftir miðnætti og farþegar eru því á ferðinni yfir hafið yfir nóttina og lenda árla dags á Orly flugvellinum við París.