Icelandair bætir við 27. þotunni fyrir sumarið

icelandair 757 a

Áfangastöðum Icelandair fjölgar um þrjá í ár og flugflotinn mun stækka enn meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Áfangastöðum Icelandair fjölgar um þrjá í ár og flugflotinn mun stækka enn meira en upphaflega var gert ráð fyrir.
Þegar flugáætlun Icelandair fyrir þetta ár var kynnt kom fram að hún yrði um átján prósent umfangsmeiri en í fyrra og að 26 farþegaþotur yrðu nýttar í áætlunarflugið. Þar af tvær Boeing 767 breiðþotur sem munu bætast við flugflota félagsins á næstunni. Nú hafa forsvarsmenn Icelandair hins vegar ákveðið að fjölga um eina þotu enn. „Við ákváðum nýlega að auka nokkuð við framboðið í sumar og bætum Boeing-757 farþegaþotu í flugflotann yfir sumarmánuðina og fram í október. Með þessari viðbót verður hægt að fjölga ferðum til áfangastaða í Evrópu og N-Ameríku,” segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður áhirf þessara breytinga.

Bæta strax við sætum til Chicago

Um miðjan mars hefur Icelandair áætlunarflug til O´Hare flugvallar við Chicago en hún er ein stærsta flughöfn Bandaríkjanna. Í ár eru þrjátíu ár liðin frá því að félagið fór jómfrúarferð sína til þessarar þriðju fjölmennustu borgar Bandaríkjanna en hún var hluti að leiðakerfi Icelandair á árunum 1986 til 1988. Upphaflega stóð til að nýta hefðbundnar Boeing 757 farþegaþotur á þessari flugleið en í þeim eru sæti fyrir 183 farþega. Viðtökurnar við þessu nýja áætlunarflugi hafa hins vegar verið það góðar að félagið mun í staðinn notast við Boeing 767 breiðþotur í flugið yfir sumarmánuðina en þær taka 262 farþega. Með þessum breytingum getur Icelandair flutt níu þúsund fleiri farþega til og frá Chicago næsta sumar en Guðjón segir að þessi fjölgun muni þó ekki auka álagið á Keflavíkurflugvelli. „Komu- og brottfarartímar þessarar viðbótar verða utan háannatíma á Keflavíkurflugvelli. Við erum að þétta það sem við köllum seinni bankann, þ.e. leiðakerfi sem byggir á því að fara vestur um haf um klukkan tíu fyrir hádegi og til Evrópu á kvöldin.”
Auk Chicago bætist skoska borgin Aberdeen við leiðakerfiIcelandair í ár og Montreal í Kanada.