Keflavíkurflugvöllur orðinn sjöunda stærsta flughöfn Norðurlanda

Hin mikla fjölgun farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar olli töluverðum breytingum á listanum yfir 10 stærstu norrænu flughafnirnar. Hin mikla fjölgun farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar olli töluverðum breytingum á listanum yfir 10 stærstu norrænu flugvellina.
Síðustu ár hefur Keflavíkurflugvöllur verið níunda stærsta flughöfn Norðurlanda en ekki komist ofar á lista þrátt fyrir að farþegum hér á landi hafi fjölgað um allt að fimmtung á milli ára. Í næstu sætum fyrir ofan hafa setið flugvellirnir við Stavanger og Þrándheim í Noregi þar sem farþegar hafa verið mun fleiri. Í fyrra fjölgaði farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hins vegar um fjórðung og voru þeir nærri 4,9 milljónir. Á sama tíma fækkaði farþegum lítillega í Þrándheimi og Stavanger og voru um 4,5 milljónir á báðum völlum. Þar með flýgur íslenska flugstöðin fram úr þessum tveimur norsku og upp í sjöunda sætið yfir stærstu flugvelli Norðurlanda eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Fimmta sætið að ári?

Farþegum fækkaði á fjórum stærstu flugvöllunum í Noregi í fyrra og er samdráttur í innanlandsflugi helsta skýringin á því. Á sama tíma jókst umferð um Landvetter í Gautaborg þar sem miðborgarflugvelli Gautaborgar var lokað í fyrra. Þar með er Landvetter orðinn fimmti stærsti flugvöllur Norðurlanda með nærri 6,2 milljónir farþega. Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar áætla hins vegar að 6,25 milljónir farþega fari um flugstöðina á næsta ári og ef það gengur eftir gæti íslenski flugvöllurinn komist enn ofar á lista á næsta ári. Bilið upp í höfuðborgarflugvellina fjóra er hins vegar ennþá breytt því um 16 milljónir fljúga til og frá Helsinki ár hvert. 
Stærstu norrænu flughafnirnar (m.v. farþegafjölda 2015):

  1. Kaupmannahafnarflugvöllur (26milljónir farþega*)
  2. Óslóarflugvöllur (24,7 milljónir)
  3. Arlanda í Stokkhólmi (23,2 milljónir)
  4. Vantaa í Helsinki (16milljónir*)
  5. Landvetter í Gautaborg (6,2 milljónir)
  6. Flesland í Bergen (6 milljónir)
  7. Keflavíkurflugvöllur (4,9 milljónir)
  8. Sola í Stavanger (4,5 milljónir)
  9. Værnes í Þrándheimi (4,4 milljónir)
  10. Billund (3 milljónir*)

*Árstölur fyrir danska og finnska flugvelli liggja ekki fyrir en aðeins flugstöðvarnar í Helsinki og Kaupmannahöfn eru stærri en Keflavíkurflugvöllur í þessum löndum.