Nærri fjögur þúsund íslensk gistirými hjá Airbnb

Umsvif Airbnb aukast hratt á Íslandi og fyrirtækið hefur á sínum snærum umtalsvert fleiri herbergi en þrjár stærstu hótelkeðjur landsins samanlagt. Umsvif húsnæðisleigusíðunnar Airbnb halda áfram aukast hratt á Íslandi og fyrirtækið hefur á sínum snærum umtalsvert fleiri herbergi en þrjár stærstu hótelkeðjur landsins samanlagt.
Fjöldi þeirra íbúða og herbergja hér á landi sem auglýst eru til skammtímaleigu á vef Airbnb hefur ríflega tvöfaldast síðastliðið ár. Í dag eru þar að finna 3.903 auglýsingar á íslenskum gistirýmum en þær voru rúmlega sautján hundruð í byrjun síðasta árs. Aukningin undanfarna tólf mánuði nemur því 124 prósentum samkvæmt svari Airbnb við fyrirspurn Túrista. Í október sl. voru gistikostirnir 3.547 talsins þannig að viðbótin, síðustu 3 mánuði, nemur ríflega tíund eða um 400 rýmum. Til samanburðar eru 320 herbergi á Fosshótel við Höfðatorg, stærsta hóteli landsins.
Með þessum hraða vexti eykst líka vægi Airbnb á íslenska markaðnum og í dag hefur fyrirtækið á sínum snærum fleiri gistirými en stærstu hótelkeðjur landsins samanlangt. Á gististöðum Íslandshótela, Icelandair Hotels og Kea hótela eru í dag samtals 2.829 herbergi eða um eitt þúsund færri rými en finna á vef Airbnb. 

Leigja út í 22 daga á ári

Herbergjafjöldi hótela og skráningar á Airbnb eru hins vegar ekki alveg samanburðarhæfar tölur. Fyrir það fyrsta þá er stór hluti þeirrar gistingar sem boðin er hjá Airbnb aðeins fáanleg hluta af ári og kannanir fyrirtækisins í Danmörku hafa t.a.m. sýnt að þar er hver gistikostur í boði í að jafnaði 22 daga á ári. Í annan stað þá eru skráningarnar hjá Airbnb ekki bundnar við herbergi því þar eru líka að finna íbúðir, einbýlishús og sumarbústaði sem þá rúma miklu fleiri gesti en hefðbundið hótelherbergi. Í þriðja lagi þá getur leigusali hjá Airbnb haft inni fleiri en eina auglýsingu fyrir sömu eignina, til dæmis ef hann leigir stundum út herbergi en alla íbúðina aðra daga. 

Íslendingar og útlendingar bóka í auknum mæli

Á sama tíma og gistiframboð á vegum Airbnb á Íslandi hefur aukist um 124 prósent þá fjölgaði gestum fyrirtækisins hér á landi um 156 prósent síðuðustu 12 mánuði. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja hins vegar aðeins gefa upplýsingar um hlutfallslegar breytingar en ekki nákvæman fjölda gesta.
Íslendingar nýta sér líka þjónustu Airbnb í auknum mæli og fjölgaði íslenskum leigjendum hjá fyrirtækinu síðustu 12 mánuði um níutíu af hundraði.
VILTU FÁ FERÐAFRÉTTIR OG TILBOÐ Í TÖLVUPÓSTI? SKRÁÐU ÞIG ÞÁ Á PÓSTLISTA TÚRISTA