EM flug til Parísar á tæpar 11 þúsund krónur

paris yfir

Fransk-hollenska lággjaldaflugfélagið Transavia hefur hafið sölu á áætlunarflugi sínu milli Íslands og Parísar næsta sumar. Fargjöldin eru mun ódýrari en Icelandair og WOW air bjóða. Fransk-hollenska lággjaldaflugfélagið Transavia hefur hafið sölu á áætlunarflugi sínu milli Íslands og Parísar næsta sumar. Fargjöldin í kringum leik íslenska landsliðsins í París eru margfalt ódýrari en Icelandair og WOW air bjóða.
Eins og langflestir, ef ekki allir, vita fer Evrópumeistaramótið í knattspyrnu fram í Frakklandi í sumar og íslenska landsliðið er meðal þátttakenda. Þetta er í fyrsta sinn sem karlalandsliðið kemst í lokakeppnina og margir Íslendingar hyggjast fylgja liðinu til Frakklands í júní næstkomandi. Og líklega eru ófáir nú þegar búnir að bóka flug til Parísar því fargjöld Icelandair og WOW air til borgarinnar í júní næstkomandi eru orðin mjög há. Hjá WOW air kostar til að mynda að lágmarki 39 þúsund krónur í dag að bóka sæti til Parísar í júní og þá er heimferðin ekki innifalin. Hjá Icelandair eru ódýrust fargjöldin, aðra leiðina, á tæpar 30 þúsund krónur en þó aðeins á fáum dagsetningum.

Frá 10.700 krónum

Íslensku félögin tvö eru þó ekki ein um að fljúga milli Íslands og Parísar því lággjaldaflugfélagið Transavia hefur flogið þessa leið yfir sumartímann um nokkurra ára skeið. Forsvarsmenn flugfélagsins hafa hins vegar dregið að hefja sölu á Íslandsflugi sínu næsta sumar en hafa núna opnað fyrir bókanir og líklega koma fargjöldin mörgum ánægjulega á óvart. Alla vega þeim sem ennþá hafa ekki tryggt sér miða til Parísar í júní því farið þangað með Transavia kostar annað hvort 76 eða 86 evrur, þ.e. 10.700 kr. eða 12.100 kr. Telja má líklegt að framboð á þessum ódýrustu sætum sé takmarkað en farmiðarnir til Íslands frá París í júni kosta aðeins meira eða ríflega 100 evrur.

Miklu ódýrara á Parísarleikinn

Fyrsti leikur íslenska liðsins á EM er þann 14. júní í St. Etienne og fjórum dögum síðar á liðið leik í Marseille í S-Frakklandi. Leiðin á þessa tvo keppnisstaði er ekki eins bein og á Stade-de-France í París þar sem Ísland spilar á móti Austurríki þann 22. júní. Þeir sem ætla að láta þann leik nægja og bóka núna far með Icelandair eða WOW air til Parísar dagana í kringum leikinn þurfa að borga rúmlega 75 þúsund krónur fyrir flugmiða báðar leiðir. Hjá WOW bætist svo fjögur til átta þúsund krónur fyrir farangur. Með Transavia má hins vegar komast til Parísar daginn fyrir leik og heim þann 24. júní fyrir tæpar 29 þúsund krónur. Fyrir innritaðan farangur þarf svo að borga aukalega að minnsta kosti 2.800 krónur hvora leið. Hvað sem því líður þá er vermunurinn töluverður.
VILTU FÁ TÚRISTAGREINAR OG FERÐATILBOÐ Í PÓSTHÓLFIÐ ÞITT? – SMELLTU HÉR TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU Í PARÍS