Á netinu alla leið

Farþegar Icelandair þurfa ekki lengur að bíða eftir að því að þotan sé komin hátt á loft til að geta tengst þráðlausu neti. Farþegar Icelandair þurfa ekki lengur að bíða eftir að því að þotan sé komin hátt á loft til að geta tengst þráðlausu neti. 
Síðustu ár og misseri hafa flugfélög keppst við að netvæða flugflota sína því samband okkar við netið er orðið svo náið að við viljum líka geta tengst því í hálofunum. Vestanhafs hefur þessi þjónusta staðið til boða um árabil en þó aðeins þegar flogið er yfir fastalandinu. Þróunin hefur verið mun hægari meðal evrópskra flugfélaga og sérstaklega þegar flogið er yfir sjó. En þrátt fyrir að hluti allra flugleiða Icelandair liggi yfir hafinu þá var félagið meðal þeirra fyrstu í Evrópu til að bjóða upp á tengingu um borð en nú eru tvö ár liðin frá því að fyrstu þotur Icelandair voru netvæddar.

Greitt fyrir aðganginn á almennu farrými

Hingað til hefur þjónustan hins vegar ekki verið aðgengileg fyrr en vélarnar hafa náð 10 þúsund feta hæð og slökkt hefur verið á tengingunni fyrir lendingu. Núna geta farþegar Icelandair hins vegar tengst þráðlausu interneti um leið og stigið er um borð og er tengingin virk allt þar til lagt er að hliði við flugstöð á áfangastað samkvæmt tilkynningu Icelandair. Þar segir jafnframt að Icelandair sé fyrsta flugfélagið í Evrópu sem býður þessa lausn. „Þessi nýjung er liður í þeirri stefnu okkar að gera flugið sem ánægjulegast fyrir farþega okkar. Að fara á netið er hluti af daglegri tilveru flestra, hvort sem um er að ræða persónulega notkun eða vinnutengda, og við viljum vera í fararbroddi við að gera fólki það kleift þegar ferðast er,“ segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, í tilkynningu.

Þráðlaust internet er í boði á öllum flugleiðum Icelandair en farþegar á almennu farrými greiða fyrir netaðganginn en þjónustan er innifalin á Saga Class.