Byggja nýtt hverfi bakvið íslenska sendiráðið

kristjansholmi kbh

Útsýnið frá kontorum íslenskra diplómata í Kaupmannahöfn mun gjörbreytast á næstu árum.
Nýhöfn er skyldustopp hjá ófáum ferðamönnum í Kaupmannahöfn en kannski gefa ekki margir sér tíma til að ganga götuna til enda því freistingarnar eru margar á leiðinni. En þegar komið er niður að bryggjukanti þá blasir við röð af vöruhúsum við hinum megin við sundið. Standa skemmurnar á litlu svæði sem kallast Kristjánshólmi sem er mitt á milli Óperuhússins og Norður-Atlantshafsbryggju sem m.a. hýsir íslenska sendiráðið í Danmörku.
Kristjánshólmi er hins vegar oftast kallaður Pappírseyjan því vöruhúsin eru aðallega notuð til að geyma dagblaðapappír.
Þessi vannýting á góðu landi í miðri borg hefur lengi verið yfirvöldum í Kaupmannahöfn þyrnir í augum og nú er loks útlit fyrir að breytingar séu í vændum. Í dag var nefnilega kynntur sigurvegari í hönnun á nýjum mannvirkjum á Pappírseyjunni og var það danska arkitektastofan COBE sem bar sigur úr bítum. Hugmynd COBE gengur út á að nýta að hluta skemmurnar sem fyrir eru og byggja ofan á þær mishá hús sem mynda hring utan um almenningsgarð eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan. 
christiansholm