Farmiðakaup út úr ráðuneytunum

kef innritun

Brátt verður leitað tilboða í kaup Stjórnarráðsins á farseðlum. Í framhaldinu verða gerðar miklar breytingar á því hvernig flugmiðar starfsmanna ráðuneytanna eru bókaðir. Brátt verður leitað tilboða í kaup Stjórnarráðsins á farseðlum og í framhaldinu verða gerðar umtalsverðar breytingar á því hvernig flugmiðar starfsmanna ráðuneytanna eru bókaðir.
Síðar í þessum mánuði er áformað að kynna útboð á farmiðakaupum Stjórnarráðsins en undir það heyra öll ráðuneytin. Þetta verður í fyrsta skipti síðan í ársbyjun 2011 sem hið opinbera býður út kaup sín á flugsætum en þá skiluðu Icelandair og Iceland Express inn tilboðum og var samið við bæði félög. Ári síðar komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að verulega miklu hefði munað á kjörum félaganna tveggja og að ekki hefði átt að taka tilboði Icelandair. Iceland Express hætti hins vegar starfsemi nokkrum mánuðum eftir úrskurð kærunefndar.

Þjálfa starfsmann í flugbókunum

Síðustu misseri hafa forsvarsmenn WOW air og Félags atvinnurekenda þrýst á um nýtt úboð og í fyrra úrskurðaði kærunefnd útboðsmála að farmiðakaup ríkisins væru það umfangsmikil að leita skyldi tilboða í þau á ný. Í framhaldinu hefur verið unnið að nýju útboði en aðeins á flugsætum fyrir starfsmenn ráðuneytanna og verður það kynnt síðar í þessum mánuði. Samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu, við fyrirspurn Túrista, þá verður innleitt nýtt verklag í kjölfar útboðsins og munu þá öll farmiðakaup færast frá ráðuneytunum sjálfum yfir í rekstrarfélag Stjórnarráðsins þar sem þjálfaður verður upp starfsmaður í bókun farseðla. Sá mun vinna eftir samræmdu verklagi sem miðar að því að ná sem mestri hagkvæmni út úr þessum þætti starfseminnar. Í dag sér hvert ráðuneyti um sín farmiðainnkaup og er verkið þá á borði starfsmanna þar innhúss en pantanir eru gerðar á grundvelli ferðabeiðna sem eru háðar samþykki yfirmanna.

Ríkisstofnanir í næstu umferð

Með því að færa bókanir út úr ráðuneytunum má segja að meiri fjarlægð skapist milli þess sem ferðast og þeirra sem bóka farmiðana. Það er líka útlit fyrir að hægt verði að velja úr farmiðum með fleiri félögum en áður því líkt og Túristi greindi frá þá er töluverður áhugi á útboðinu meðal forsvarsmanna nokkurra þeirra erlendu flugfélaga sem hingað fljúga allt árið um kring. Það er því ekki öruggt að íslensku flugfélögin verði ein um hituna líkt og í útboðinu fyrir fimm árum síðan.
Í kjölfar útboðsins á farmiðakaupum stjórnarráðsins er ætlunin að unnið verði að sambærilegri útfærslu fyrir stofnanir ríkisins samkvæmt því sem segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því í janúar.