Ekki útlokað að rútumiðar til Keflavíkurflugvallar hækki líka

Brátt hækka bílastæðagjöldin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar umtalsvert og þá verða áætlunarferðir út á völl mun hagstæðari kostur.Verðbilið gæti hins vegar minnkað fljótt á ný. Brátt hækka bílastæðagjöldin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar umtalsvert og þá verða áætlunarferðir út á völl mun hagstæðari kostur.Verðbilið gæti hins vegar minnkað fljótt á ný.
Frá og með þarnæstu mánaðarmótum hækkar sólarhringsgjaldið á langtímastæðinu við Keflavíkurflugvöll um nærri þriðjung og verður 1.250 kr. Eftir þessa verðhækkun kostar 8.750 kr. að láta bíl standa þar í viku en fyrir tvær vikur þarf að greiða 15.400 kr. Til samanburðar kostar rútumiði út á völl, báðar leiðir, fyrir tvo fullorðna 7.600 kr. með Airport Express og 8.000 með Flugrútunni. Börn fá frítt en unglingar borga hálft gjald. 

Hærri laun og skattur

Það verður því nokkru hagstæðara að skilja bílinn eftir heima ef dvelja á í útlöndum í viku eða lengri tíma en ekki fyrir nokkra daga líkt og kom fram í verðsamanburði Túrista í vikunni. Hins vegar sparar höfuðborgarbúi sér eitt til þrjú þúsund krónur í bensín með því að fara með rútu í flugið en á móti kemur kostnaður við að koma sér frá heimili að umferðarmiðstöð, til dæmis með leigubíl. Það er hins vegar ekki víst að verðmunurinn á þessum tveimur ferðamátum verði áætlunarbifreiðunum jafn hagstæður þegar líður á árið. Meðal annars vegna almennra launahækkanna og tilkomu 11 prósenta virðisaukaskatts á flesta þætti ferðaþjónustu. „Eins og staðan er í dag hefur ekki verið tekin ákvörðun um að hækka verðið en það eru miklar kostnaðarhækkanir á árinu sem við þurfum að taka tillit til þannig að ég get ekki útilokað það,“ segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, aðspurður um hvort til standi að hækka farmiðaverð Flugrútunnar. Jóhannes Georgsson hjá Gray Line, sem rekur Airport Express, segir engar verðbreytingar vera fyrirhugaðar núna.
Strætó býður einnig upp á ferðir út á Keflavíkurflugvöll en fyrsta ferð dagsins er þó ekki nógu snemma fyrir þá sem eiga að mæta í morgunflug. Farmiði hjá Strætó kostar 1.400 kr. aðra leið.

Stæðin standa tæpt í dag

Eins og gefur að skilja þá eru það helst Íslendingar sem nýta sér langtímabílastæðin út á Keflavíkurflugvelli en þrátt fyrir að íslenskum flugfarþegum hafi fjölgað milli ára þá voru þeir færri á síðasta ári en 2007 þegar ferðagleði landans náði hámarki. Þrátt fyrir það er nýting stæðanna allt að 96 prósent í dag samkvæmt upplýsingum frá Isavia og því stundum tæpt að allir komist þar að með bílana sína.