Forsvarsmenn Icelandair verða ekki varir við samkeppni frá WOW

Icelandair bætir fjórum flugleiðum við leiðakerfi sitt í ár en hafa 10 til 15 nýja áfangastaði í sigtinu. Þrátt fyrir mikla aukningu í flugi WOW til og frá N-Ameríku finna forsvarsmenn Icelandair ekki fyrir samkeppninni.

icelandair 757 a

Mid-Atlantic, hin árlega ferðakaupstefna Icelandair, fór fram í Laugardalshöll um helgina. Þetta var í 24. skipti sem kaupstefnan er haldin og aldrei hefur hún verið fjölmennari. Fulltrúar Icelandair voru 850 talsins og stór hluti þeirra kom frá löndum sem hafa mest tengsl við íslenska ferðageirann. Vel á annað hundrað íslensk ferðaþjónustufyrirtæki víðs vegar að af landinu eru meðal þátttakenda samkvæmt því sem kom frá í tilkynningu frá Icelandair.

2 nýir áfangastaðir báðum megin við hafið

Framkvæmdastjóri Icelandair, Birgir Hólm Guðnason, og Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála félagsins, ræddu við erlenda blaðamenn á fundinum og sögðust m.a. sjá tækifæri í áætlunarflugi fyrir félagið til 10-15 áfangastaða í N-Ameríku og norðurhluta Evrópu sem í dag væru ekki hluti af leiðakerfi félagsins samkvæmt frétt danska ferðavefsins Standby. En í síðustu viku tilkynnti Icelandair um nýtt áætlunarflug til Orly flugvallar í París og verður franski flugvöllurinn fjórði nýi áfangastaður Icelandair í ár. Hinir eru Chicago í Bandaríkjunum, skoska borgin Aberdeen og Montreal í Kanada.

Finna ekki fyrir WOW

Um helmingur farþega Icelandair eru farþegar sem fljúga yfir hafið og millilenda aðeins á Íslandi en WOW air hóf að bjóða upp á þess háttar tengiflug í fyrra og munu íslensku félögin tvö brátt vera í samkeppni á fjórum flugleiðum vestur um haf og átta í Evrópu. Þrátt fyrir það segjast stjórnendur Icelandair ekki verða var við aukin umsvifum íslenska lággjaldaflugfélagsins. „Við finnum ekki fyrir samkeppninni frá WOW air,“ hefur Standby eftir þeim Birki og Helga Má.

Sterkari utan bandalaga

Mörg stærstu flugfélög heims eiga í nánu samstarfi í gegnum sérstök bandalög eins og Star Alliance, Sky team og Oneworld. Það er hins vegar ekki á dagskrá hjá forsvarsmönnum Icelandair að sækja um aðild að þess háttar bandalögum og segja framkvæmdastjórar Icelandair að félagið hefði ekki náð að vaxa jafn hratt og það hefur gert síðustu ár ef það væri hluti af þess háttar bandalögum. „En við eigum í nánu samstarfi við SAS og Finnar og Alaska Airlines og JetBlue í N-Ameríku,“ bættu þeir Birkir og Helgi Már við á fundinum samkvæmt frétt Standby.
Líkt og Túristi greindi frá þá mun 27. farþegaþotan bætast við flugflota Icelandair á næstunni og með viðbótinni verður hægt að fjölga flugferðum félagsins í ár nokkru meira en upphaflega stóð til.