Þeir sem ferðast með Icelandair í dag, morgun og hitt fá glaðning í háloftunum. Haldið er sérstaklega upp á íslenska hátíðsdaga um borð í vélum félagsins.
Áhafnir Icelandair hafa í dag boðið farþegum upp á íslenskar rjómabollur í tilefni dagsins og aðspurður segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, að samtals hafi fjögur þúsund bollur verið borðaðar í vélum félagsins þennan bolludaginn. „Það er alltaf gaman að koma farþegum okkar á óvart og við reynum eftir fremsta megni að gera eitthvað skemmtilegt um borð á séríslensku tyllidögunum okkar“, segir Guðjón og bætir því við að á morgun, sprengidag verði saltkjöt á boðstólum. Á öskudaginn fá svo börnin öskupoka með óvæntum glaðning.
En þó starfsmenn Icelandair haldi veglega upp á dagana þrjá fyrir lönguföstu þá er verður að teljast ólíklegt að farþegar félagsins kynnu að meta skötu á Þorláksmessu.
Gefa farþegum bollur, saltkjöt og öskupoka
