Stones smellur á að fá fleiri beint inn á Hilton

hilton agul

Hótelstjórum út um víða veröld svíður að borga um fjórðung af herbergisverðinu í þóknun til bókunarfyrirtækja. Hér er nýjasta tilraun Hilton hótelkeðjunnar til að fá fleiri til að bóka beint.
Umsvif hótelbókunarsíðna eins og Booking.com og Hotels.com stóraukast með hverju árinu og allir þeir sem selja gistingu af einhverju tagi geta varla annað en skráð sig á lista hjá bókunarfyrirtækjunum. Það kostar hins vegar sitt því þessi fyrirtæki taka á bilinu 15 til 30 prósent í sölulaun. Það er því ekki óskastaða fyrir hóteleigendur að gestirnir panti herbergin þeirra annars staðar en á heimasíðu hótelanna. Forsvarsmenn Hilton keðjunnar reyna nú með nýrri auglýsingu að fá fleiri til að bóka gistinguna hjá sér milliliðalaust og il að gera þann kost fýsilegri hefur markaðsdeild Hilton keypt leyfi til að skreyta auglýsinguna með einu þekktasta lagi rokksögunnar, (Can´t get no) Satisfaction með Rolling Stones. Og ef Túristi man rétt þá mun Keith Richards einmitt hafa samið grunninn að laginu á hótelherbergi fyrir rúmri hálfri öld síðan.