Hótel vel bókuð fyrir sumarið

Það er útlit fyrir að gististaðir stærstu hótelkeðja landsins verði vel nýttir í sumar og að asískum gestum fjölgi. Verðskrár hafa hækkað milli ára.

hotelrum nik lanus

„Hótelin eru, líkt og í fyrra, mjög vel bókuð fyrir sumarið, bæði í Reykjavík og á landsbyggð. Síðasta sumar var metár hjá okkur og við erum af þeim sökum að bæta við okkur fleiri hótelherbergjum, enda þau sem fyrir eru nánast fullbókuð,” segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, aðspurð um útlitið fyrir aðal ferðmannatímabilið í ár. Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela hefur svipaða sögu að segja. Þar hefur bókunum á reykvísk hótel fyrir sumarið fjölgað um 15 prósent frá því sama tíma í fyrra og um tíund úti á landi. Hjá KEA hótelum er staðan álíka og á síðasta ári að sögn Páls L. Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra.
Íslandshótel, Icelandair hotels og KEA hótelin eru þrjú stærstu hótelfyrirtæki landsins og hafa í dag samtals ríflega 2800 hótelherbergi á sínum snærum og mun sú tala hækka þónokkuð á næstu mánuðum.

Verð hefur hækkað

Á sama tíma og eftirspurn eftir gistingu eykst þá hafa verðskrár hótelanna hækkað en Páll hjá KEA hótelum segir verðþróunina hjá fyrirtækinu hafa fylgt breytingum á almennu verðlagi og hækkað um fimm prósent. Fjölgun stærri og betri hótelherbergja skýrir einnig breytingarnar að sögn Magneu hjá Icelandair Hotels því „deluxe” herbergi, svítur og fjölskylduherbergi kosti meira en venjuleg herbergi.

Fleiri á leiðinni frá Asíu

Bretar og Bandaríkjamenn eru langfjölmennustu þjóðirnar í hópi ferðamanna á Íslandi og hefur þeim fjölgað hratt síðustu ár. Síðastliðið sumar lét nærri að einn af hverjum þremur túristum hér á landi væri frá þessum tveimur löndum og hótelbókanir frá Bretlandi og Bandaríkjunum eru því áberandi margar fyrir sumarið en Davíð hjá Íslandshótelum segir líka aukningu í pöntunum frá Kína. Hjá Icelandair Hotels er sömuleiðis mikil viðbót í bókunum frá Asíu og segir Magnea að fyrirtækið hafi markvisst sótt inn á þann markað í samstarfi við systurfélög sín Icelandair og Iceland Travel. „Mesta aukningin er þó eftir sem áður frá Bandaríkjamarkaði,” bætir hún við.