Þjóðtungan fyrst og svo enska á hinum norrænu flugvöllunum

Á skiltunum sem vísa farþegum veginn um Keflavíkurflugvöll eru leiðbeiningarnar fyrst skrifaðar á ensku og svo íslensku. Forsvarsmenn stærstu flugvalla Norðurlanda setja hins vegar ríkismálin efst á blað.

skilti osl hel

Á nýjum upplýsingaskiltum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er enskur texti skrifaður á undan þeim íslenska. Öfugt við það sem áður tíðkaðist. Ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu er sú að um flugstöðina fara mun fleiri erlendir farþegar en íslenskir samkvæmt frétt Vísis.
Á stærstu flugstöðvum Norðurlanda er enskan hins vegar í öðru sæti og ekki stendur til að fylgja fordæmi forsvarsmanna íslenska flugvallarins.

Myndi vekja upp umræðu í Noregi

„Við höfum ekki uppi nein áform um að breyta skiltunum okkar og setja enska textann framan við þann norska. Ég held þó að óhætt sé að fullyrða að norsku og ensku orðin eru jafn áberandi í dag því við notum sömu leturgerð og stærð fyrir bæði tungumál,“ segir Kim Lang, yfirmaður fasteignadeildar Óslóarflugvallar, í svari til Túrista. Hann tekur hins vegar fram að farþegahóparnir á norska og íslenska flugvellinum séu ólíkir þar sem hlutfall skiptifarþega sé töluvert meira í Leifsstöð. „Leturgerðin sem notuð er á skiltunum (á Keflavíkurflugvelli, innsk. blm) gerir enskunni hærra undir höfði á kostnað íslenskunnar og það kemur mér ekki á óvart að umræða hafi skapast um þessa breytingu. Ég held að það myndi líka gerast hér í Noregi.“
Talsmaður Kaupmannahafnarflugvallar, stærstu flughafnar Norðurlanda, segir að þar á bæ sé sömu línu fylgt, þ.e. danska fyrst og svo enskan. Sumstaðar á Kastrup er einnig að finna vegvísa á kínversku. Åsa Öhman, talskona Swedavia, rektraraðila Arlandaflugvallar í Stokkhólmi, segist ekki vita hvort það sé einhver sérstök ástæða fyrir því að sænskan sé höfð á undan á flugvöllum þar í landi en bendir á að móðurmálin séu líka í forgrunni í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og á hinum Norðurlöndunum.

Eingöngu enska?

Líkt og á Keflavíkurflugvelli þá eru tengifarþegar fjölmargar á flugvellinum í Helsinki þar sem ríkisflugfélagið Finnair er mjög umsvifamikið í Asíuflugi. Þrátt fyrir það eru þjóðtungurnar tvær, finnska og sænska, á undan enskunni á upplýsingaskiltunum á flugvellinum og kínversk og japönsk orð koma einnig fyrir á sumum skiltum. „Af og til hefur það komið upp í umræðunni að setja enskuna fremst og svo tungumálin okkar eða jafnvel láta enskuna duga“, segir Annika Kåla, talsmaður Finnavia, aðspurð um forgangsröðina á leiðarvísum finnska flugvallarins. Kåla bætir því við að þegar framkvæmdum við stækkun Helsinkiflugvallar lýkur eftir tvö ár eða svo þá verði að taka upp nýtt skiltakerfi í flugstöðinni og þá muni spurningin um röðun tungumála vafalítið koma upp á ný.