Gætu fengið Airbnb til að innheimta gistináttagjald

Það er engin trygging fyrir því að einstaklingar sem leigja út íbúðir til ferðamanna leggi á gistináttagjald líkt og þeir eiga að gera. Ríkisskattstjóri hefur sett sig í samband við Airbnb og aðra sambærilega aðila til að gera þeim grein fyrir íslenskum reglum.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Gistináttaskattur hér á landi nemur 100 krónum og er hann lagður á sölu gistingar fyrir hvern sólarhring. Hótelstjóri sem leigir út fjörtíu herbergi í nótt þarf því að greiða 4000 krónur í gistináttagjald á morgun og sá sem leigir út 10 svefnpokapláss borgar þá 1000 krónur. Það er sem sagt ekki gerður munur á gæðum gistingarinnar og skatturinn er sá sami á stóra svítu og svefnpokapláss í koju. Víða erlendis tíðkast hins vegar þrepaskiptur hótelskattur og hann er þá hæstur á fimm stjörnu hótelum en lægstur á farfuglaheimilum.

Litlar heimtur hjá leigusölum

Íbúðir og svefnaðstaða sem leigð er út í gegnum fyrirtæki eins og Airbnb er einnig skattskyld og skal innheimta eitt hundrað krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir hverja nótt. Umsvif Airbnb á íslenska markaðnum eru mjög mikil og fyrirtækið hefur á sínum snærum fleiri gistirými en þrjár stærstu hótelkeðjur landsins samanlangt. Fyrirtækið innheimtir hins vegar ekki gistináttagjald hér á landi samkvæmt lista á heimasíðu fyrirtækisins yfir þær borgir og lönd þar sem sérstakur hótelskattur er lagður ofan á leiguverðið. Það er því undir íslenskum leigusölum sjálfum komið að standa skil á þessu opinbera gjaldi. Hversu margir gera það liggur ekki fyrir en samkvæmt frétt Independent sýnir reynslan í París að heimturnar eru litlar þegar fyrirkomulagið er þannig. Þess vegna hafa yfirvöld í höfuðborg Frakklands látið það í hendurnar á Airbnb sjálfu að innheimta gjaldið af ferðamönnum og skila því svo til borgarinnar.

Tryggja að skattar og gjöld séu greidd

Hvort sú leið standi íslenskum skattyfirvöldum líka til boða liggur ekki fyrir en samkvæmt svari rá ríkisskattstjóra, við fyrirspurn Túrista, þá er verið er að fara yfir þessi mál og fleiri með Airbnb og öðrum sambærilegum fyrirtækjum. „Það er markmið okkar að þessi samskipti við umrædda aðila leiði til betri yfirsýnar í þessum málum þannig að tryggt verði að réttir skattar og gjöld séu greiddir af þessum viðskiptum hér á landi.“
Samkvæmt útreikningum Túrista má gera ráð fyrir að gistináttagjald af gistingu á vegum Airbnb gæti skilað um 20 milljónum á ári í ríkissjóð.
TENGDAR GREINAR: Gistináttagjald hóflegt hér á landi