Bílaleiguverðið langhæst hér á landi sem fyrr

island anders jilden

Ferðamenn á Íslandi borga mun meira fyrir afnot af bílum en þeir sem fara um önnur Evrópulönd. Ferðamenn á Íslandi borga mun meira fyrir afnot af bílum en þeir sem fara um önnur Evrópulönd.
Samanburður Túrista á verðskrá bílaleiga við 20 evrópskar flughafnir hefur endurtekið sýnt að leigan hér á landi er tugum prósentum hærri en annars staðar. Á því hefur ekki orðið breyting samkvæmt nýrri könnun Túrista sem framkvæmd var í gær og í dag.
Þannig borga þeir sem bóka bíl, sem afhentur er við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að jafnaði um 9 þúsund krónur á dag fyrir bíl af minnstu gerð í tvær vikur yfir sumartímann en næst hæsta verðið er sem fyrr við Óslóarflugvöll. Þar hefur sumarverðið hins vegar lækkað milli ára og hefur þar lækkandi gengi norsku krónunnar líka töluverð áhrif. Íslenska krónan hefur á sama tíma styrkst og í íslenskum krónum talið hafa verðskrár evrópskra bílaleiga lækkað í samanburði við niðurstöður könnunar Túrista sem gerð var fyrir nákvæmlega einu ári síðan. Eins og sést hér fyrir neðan þá borgar íslenskur ferðamaður í dag nokkru minna fyrir bílaleigubíla í Evrópu en hann þurfti að gera í fyrra. Eina undantekningin er bílaleigurnar við Arlanda flugvöll í Stokkhólmi og Alicante á Spáni.

Notast við lægsta verðið

Í samanburði Túrista eru fundnir ódýrustu bílaleigubílarnir við hverja flugstöð síðustu tvær vikurnar í júní, júlí og ágúst og svo reiknað út meðalverð á dag. Í öllum tilvikum er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging innifalin í verðinu.
Notast var við leitarvél Rentalcars.com sem er ein umsvifamesta bókunarsíða heims á þessu sviði og býður því oft lægra verð en almennt gerist. Sem dæmi finnur Rentalcars bílaleigubíl á Keflavíkurflugvelli, seinni hlutann í júlí, á nærri 135 þúsund krónur. Ódýrasti bíllinn hjá Hertz þessa sömu daga er á um 203 þúsund krónur og 220 þúsund hjá Avis. Rétt er að taka fram að Rentalcars.com er samstarfsaðili Túrista og heldur úti bílaleiguleitarvél síðunnar.