Áform um Bowie minnisvarða Brixton

bowie brixton

Veggmynd skammt frá æskustöðvum David Bowie verður hugsanlega skyldustopp aðdáenda hans um ókomna tíð.
Nú eru nærri þrír mánuðir liðnir frá því að tónlistarmaðurinn David Bowie féll frá. Fregnir af andláti hans komu aðdáendum hans algörlega í opna skjöldu því Bowie hafði haldið alvarlegum veikindum sínum leyndum og gefið út nýja plötu nokkrum dögum fyrr. Um leið og það spurðist út að meistarinn væri allur þá hófu aðdáendur hans að safnast saman víðs vegar um heiminn og margir lögðu leið sína að veggmynd af Bowie rétt við æskuslóðir hans í Brixton hverfinu í suðurhluta Lundúna.
Þessi veggmynd af Ziggy Stardust, einni af sviðspersónum Bowie, hefur verið þarna um nokkurt skeið en allt frá andlátinu þann 11. janúar hefur fólk streymt að myndinni til að votta átrúnaðargoðinu virðingu sína og leggja þar blóm og kveikja á kertum. Yfirvöld í Brixton hverfinu hafa nú gefið út að þau vilji leita leiða til að tileinka Bowie þetta svæði og jafnvel nefna það í höfuðið á honum. Það er þó tekið skýrt fram að ekkert verði gert nema með fullu samþykki fjölskyldu Bowie. 
Ef af þessum áformum verður má fastlega búast við að Tunstall Road í Brixton hverfinu verði verði hér eftir skyldustopp í ferð Bowie aðdáenda til Lundúna.