Eldneytisálag Icelandair helmingað

Olíuverð hefur fallið síðustu misseri og það hefur áhrif á farmiðaverðið og líka afkomu flugfélaga.

icelandair 757 a

Í lok febrúar lækkaði eldsneytisálag Icelandair um nærri þriðjung og er það í dag um helmingi lægra en það var í lok árs 2014. Þá nam gjaldið í Evrópuflugi 9.200 kr. en 16.400 krónum ef flogið var frá Íslandi til N-Ameríku líkt og Túristi greindi frá. Núna er álagið 4.600 krónur þegar haldið er til evrópskra áfangastaða Icelandair en 8.100 kr. í flugi félagsins til Bandaríkjanna og Kanada samkvæmt heimasíðu félagsins. Þetta sérstaka olíuálag Icelandair hefur því lækkað um helming síðastliðið rúmt ár en til samanburðar hefur verð á flugvélabensíni lækkað um ca. 40 af hundraði sl. ár samkvæmt upplýsingum á heimasíðu IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga. Á móti kemur að gengi dollara hefur styrkst og það vegur upp á móti lækkuninni.

Dýrkeyptir samningar

Kostnaður vegna kaupa á flugvélabensíni vegur þungt í rekstri flugfélaga og stjórnendur þeirra gera í langflestum tilfellum samninga um kaup á eldsneyti á ákveðnu verði fram í tímann. Þannig er komið í veg fyrir að umtalsverðar verðhækkanir á olíu hafi mikil áhrif á reksturinn með stuttum fyrirvara. Þess háttar samningar geta hins vegar verið óhagstæðir ef eldsneyti lækkar mikið, til dæmis hafði Mbl.is það nýverið eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, að það hafi kostað flugfélagið tæpan milljarð króna að hafa fest verð á olíu í árslok 2014. Verðið hélt nefnilega áfram að lækka allt síðasta ár og WOW hefði því getað keypt ódýrara eldsneyti á þoturnar ef ekki væri fyrir þennan samning.

Sama heildarverðið

Hlutfall eldsneytisálags af farmiðaverðinu er oftast nokkuð hátt hjá þeim flugfélögum sem eru með slíkt gjald. Það er hins vegar ekki svo að flugfélög sem hafa ekki sérstakt álag bjóði ávallt ódýrari farmiða en hin. Verð á eldsneyti hefur nefnilega áhrif á rekstur allra flugfélaga og óhætt að fullyrða að farþegar borgi sama verð hvort sem eldsneytiskostnaður er sérmerktur í smáaletrinu eða ekki. Það er hins vegar óumdeilt að lækkandi olíuverð hefur bætt mjög afkomu flugfélaga síðustu misseri og það vilja margir sjá endurspeglast með skýrari hætti í farmiðaverðinu. Vestanhafs hefur til að mynda Hilllary Clinton, forsetjaframbjóðandi, gagnrýnt forsvarsmenn stærstu flugfélaga Bandaríkjanna fyrir að halda fargjöldunum óbreyttum og innleiða alls kyns aukagjöld á sama tíma og olíuverðið hefur hríðlækkað.
Samkeppni í flugi er hins vegar mikil og hefur aldrei verið meiri í flugi til og frá Íslandi. Það hefur vafalítið líka áhrif á verðlagið og samkvæmt mánaðarlegum verðkönnunum Túrista á farmiðaverði til London, Kaupmannahafnar og Óslóar þá hefur farmiðaverð farið lækkandi síðastliðið ár. Bæði hjá félögum sem eyrnamerkja eldsneytiskostnaðinn og líka hjá hinum sem gera það ekki.