Engin ákvörðun um að selja aðgang að Cinque Terre

cinque terre Sylwia Pietruszka

Nýverið bárust fréttir að nýjum aðgangspössum að fjölförnu svæði í norðvesturhluta Ítalíu. Nýverið bárust fréttir að nýjum aðgangspössum að fjölförnu svæði í norðvesturhluta Ítalíu. Hið rétta er að málið er ennþá á hugmyndastigi.
Þjóðgarðurinn Cinque Terre á ítölsku ríveríunni samanstendur af fimm fallegum fiskiþorpum sem byggð er við klettótta ströndina. Húsin í þessum bæjum eru máluð í öllum regnbogans litum og er svæðið á heimsminjaskrá UNESCO. 
Cinque Terre hefur lengi verið vinsæll áfangastaður ferðafólks en undanfarin ár hefur þeim fjölgað mjög mikið og sérstaklega eftir að skemmtiferðaskip hófu að hleypa farþegum sínum í land þarna við Liguríuströndina. Talið er að um 2,5 milljónir ferðalanga hafi heimsótt Cinque Terre í fyrra og í síðasta mánuði bárust af því fréttir að ítölsk stjórnvöld hefðu ákveðið að hefja sölu á sérstökum aðgangspössum að svæðinu og fækka þannig ferðafólki um eina milljón á ári. 

Rangtúlkuð tillaga

Hið rétta er hins vegar að engin ákvörðun hefur verið tekin um taka upp fjöldatakmarkanir við Cinque Terre samkvæmt tilkynningu frá ferðamálaráði Ítalíu. Þar segir að þjóðgarðsnefnd svæðisins hafi líst yfir áhyggjum af miklum ágangi ferðamanna og lagt til að aðgengi að svæðinu yrði takmarkað. „Þessi tillaga hefur verið túlkuð í erlendum fjölmiðlum sem ný regla en svo er ekki. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að draga úr möguleikum fólks að heimsækja Cinque Terre,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Yfirvöld vinna hins vegar að tillögum um hvernig megi vernda þorpin, dreifa ferðamönnum betur yfir árið og tryggja öryggi þeirra en um leið auka skilning gesta á því að svæðið er viðkvæmt og ganga verði varlega um.

Jafnstórt svæði og Garðabær

Áskoranirnar við Cinque Terre eru því álíka og þær sem ferðaþjónustan hér á landi tekst á við um þessar mundir. Stóri munurinn er hins vegar sá að nærri tvöfalt fleiri ferðamenn heimsóttu Cinque Terre í fyrra en allt Ísland. Þessi fimm ítölsku klettaþorp ná samt aðeins yfir jafnstórt svæði og Garðabær og til gaman má svo geta að samkvæmt hótelbókunarvefnum Booking.com eru 517 gististaðir í Cinque Terre en aðeins þrír í Garðabæ, eitt gistiheimili og tvö orlofsíbúðir. 
SMÁAUGLÝSINGAR FERÐAÞJÓNUSTUNNAR: Húsnæði við Keflavíkurflugvöll til leigu