Til Chicago eftir 28 ára fjarveru

Icelandair chicago a

Í dag hefur Icelandair á ný flug til þriðju fjölmennustu borgar Bandaríkjanna.
Umsvif Icelandair vestanhafs hafa aukist jafnt og þétt frá hruni og fjölgar bandarískum áfangastöðum félagsins ár frá ári. Þeir eru nú orðnir ellefu talsins og er Chicago í Illinois fylki nýjasta viðbótin. Þangað fer félagið í sína fyrstu ferð í nærri þrjá áratugi síðar í dag. Borgin var hluti að leiðakerfi Icelandair á níunda áratugnum en fluginu var hætt haustið 1988. Sú breyting var hluti af niðurskurði hjá félaginu og var þá ákveðið var að leggja megináherslu á flug til Evrópu samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í júlí 1988.
Áætlunarflug til bandarísku borganna Boston og Baltimore lagðist af á sama tíma en Icelandair snéri aftur til þessara tveggja flugvalla síðar. Fyrst í dag tekur félagið hins vegar upp þráðinn í Chicago en flugvöllur borgarinnar, O´Hare, er þriðja stærsta flughöfn Bandaríkjanna á eftir Hartsfield-Jackson í Atlanda og flugvellinum í Los Angeles.

Bættu við 9 þúsund sætum

Upphaflega stóð til að nýta Boeing 757 farþegaþotur í flug Icelandair til Chicago en í þeim vélum eru sæti fyrir 183 farþega. Viðtökurnar við þessu nýja áætlunarflugi hafa hins vegar verið það góðar að félagið mun í staðinn notast við breiðþotur í flugið yfir sumarmánuðina en þær taka 262 farþega. Með þessum breytingum getur Icelandair flutt níu þúsund fleiri farþega til og frá Chicago næsta sumar.

Taka slaginn við SAS

Iceland Express flaug vikulega til Chicago sumarið 2011 en annars hefur SAS, stærsta flugfélag Norðurlanda, setið nær eitt að reglulegu flugi milli Norðurlanda og Chicago ef frá er talið sumarflug Finnair frá Helsinki. Á þessu verður hins vegar breyting í dag með áætlunarferðum Icelandair sem verða í boði fjórum sinnum í viku allt árið um kring. Það vakti hins vegar athygli að stuttu eftir að Icelandair hóf sölu á flugmiðum til Chicago þá tilkynntu forsvarsmenn SAS að félagið myndi hefja daglegt áætlunarflug til Íslands frá Kaupmannahöfn og til Boston. Sú borg hefur verið helsta vígi Icelandair vestanhafs síðustu ár og innan fluggeirans litu margir svo á að þessi ákvörðun SAS væri viðbrögð við flugi Icelandair til Chicago. Simon Pauck Hansen, einn lykilstjórnenda SAS, sagði hins vegar í viðtali við Túrista að Chicagoflug Icelandair hefði ekkert haft með ákvörðun SAS að gera. „Chicago er stórborg og staðsetning hennar hentar flugflota Icelandair vel. Það var algjör tilviljun að við kynntum flugið til Boston og Keflavíkurflugvallar á sama degi en ég get skilið að sumir sjái þetta með öðrum hætti.”