Draga verulega úr Lundúnarflugi frá Egilsstöðum

egilsstadaflugvollur

Til stóð að bjóða upp á reglulegt flug til Egilsstaða frá höfuðborg Bretlands frá vori og fram á haust. Stór hluti ferðanna hefur hins vegar verið felldur niður. Til stóð að bjóða upp á reglulegt flug til Egilsstaða frá höfuðborg Bretlands frá vori og fram á haust. Stór hluti ferðanna hefur hins vegar verið felldur niður.
Ferðaskrifstofan Discover the World hafa í áratugi verið í fararbroddi í skipulagningu Íslandsferða frá Bretlandi og í fyrra komu hingað um 10 þúsund Bretar á vegum fyrirtækisins. Í byrjun þessa vetrar tilkynntu forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar að nú í sumar yrði í boði beint flug milli London Gatwick flugvallar og Egilsstaða og sætin seld til viðskiptavina Discover the World og íslenskra farþega. Til stóð að starfrækja þessa flugleið frá lokum maí og út september og fara átti tvær ferðir í viku. Nú hafa forsvarsmenn Discover the World hins vegar ákveðið að draga verulega úr þessum áformum og fækka ferðunum úr 35 í níu og verða þær allar í júlí og ágúst. Farþegar sem áttu bókað flug í ferðir sem felldar verða niður fá boð um breytta áætlun.

Vilja Reykjavík, Bláa lónið og Gullna hringinn

Aðspurður viðurkennir Clive Stacey, forstjóri og stofnandi Discover the World, að upphaflega planið hafi verið of bjartsýnt. „Eftir á að hyggja hefðum við átt að bjóða upp á styttri flugáætlun strax frá upphafi þar sem hugmyndin um beint flug til Egilsstaða hefur ekki fengið eins mikinn hljómgrunn og við áttum von á,” segir hann í samtali við Túrista. Að sögn Stacey skrifast þetta meðal annars á þá staðreynd að Bretar sem hyggjast ferðast til Íslands vilja fara Gullna hringinn og heimsækja Reykjavík og Bláa lónið. Flug til Egilsstaða fellur því ekki nógu vel að ferðaplönunum. 
En er hægt sé að breyta þessari forgangsröð breskra ferðamanna? „Það er á hreinu að við ein getum ekki breytt kauphegðun fólks og íslenska ferðaþjónustan verður í heild sinni að fjárfesta í markaðssetningu á afskekktari svæðum ef það á að takast.” Stacey telur að boðaður stuðningur við millilandsflug frá landsbyggðinni sé skref í rétta átt en segir mikilvægt að skilyrðin fyrir styrkjunum séu sveigjanleg, lagi sig að þörfum markaðarins og veiti stuðning þeim fyrirtækjum sem taki fjárhagslega áhættu með skipulagningu á flugi út á land.

Innanlandsflug frá Keflavík utan háannatíma

Í sumar munu 20 flugfélög bjóða upp á áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli og nokkur í viðbót fljúga leiguflug fyrir íslenskar og erlendar ferðaskrifstofur. Í júlí nær flugið hámarki og þá verða daglega sæti fyrir um 15 þúsund farþega í vélunum sem fljúga til Keflavíkurflugvallar og stór hluti þeirra verður skipaður erlendum ferðamönnum. Það munu s.s. mörg þúsund erlendir túristar eiga leið um Leifsstöð á hverjum degi í sumar en öfugt við flugvellina í nágrannalöndunum þá er nær ekkert innanlandsflug í boði frá Keflavíkurflugvelli. Aðeins nokkrar ferðir í viku til Akureyrar yfir sumarið. Telur Stacey að bættar flugsamgöngur frá Keflavíkurflugvelli og út á land gætu stuðlað að betri dreifingu ferðamanna hér á landi? „Í dag er flogið til Íslands frá 10 breskum flughöfnum og það er því mjög erfitt fyrir okkur að þjónusta allan markaðinn með ferðir frá einum flugvelli. Eftir því sem flugleiðunum milli Bretlands og Keflavíkurflugvallar fjölgar þeim mun erfiðara verður að bjóða upp á beint flug út á landsbyggðina frá Bretlandi. Ég tel því að innanlandsflug frá Keflavík til staða eins og Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða gæti verið mikilvægt, sérstaklega utan háannatímans.“ 

Hafa selt nærri helmingi fleiri Íslandsferðir

Clive Stacey segir að í dag sé of snemmt að segja til um hvernig Egilsstaðafluginu frá London verði háttað á næsta ári. Fyrst verði að sjá hvernig gangi að selja sæti í þær ferðir sem boðið verður upp á í sumar. Hann leggur hins vegar áherslu á að það sé engum að kenna að upphafleg áætlun sumarsins hafi ekki gengið upp. „Við fórum í þetta verkefni með miklar væntingar en því miður var árangurinn ekki sem skyldi. Kannski erum við aðeins of langt á undan markaðnum en ég efast ekki um að eina leiðin til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna á Íslandi er að bjóða upp á hraðar og skilvirkar samgöngur út á land.” Stacey segir að góðu fréttirnar séu þær að í dag hafi Discover the World selt 45 prósent fleiri ferðir til Íslands en á sama tíma í fyrra.
Samkvæmt nýju flugáætluninni verður flogið alla laugardaga frá 9. júlí til 20. ágúst milli Egilsstaða og London auk miðvikudaganna 13. júlí og 10. ágúst. Bóka má miða á FlyEurope.is.
TENGDAR GREINAR: Kaupmannahafnarflug frá Akureyri verður ekki að veruleika í ár
SMÁAUGLÝSINGAR: Húsnæði við Keflavíkurflugvöll til leigu