Í dag stóreykst samkeppni í flugi héðan til Kaupmannahafnar

sas 860 a

Sögulegur dagur í flugi milli Íslands og Danmerkur því nú munu þrjú flugfélög bjóða upp á daglegar ferðir. Höfuðborg Danmerkur er sú borg sem Íslendingar heimsækja einna oftast og flugið þangað stór hluti af umsvifum íslensku flugfélaganna. Í dag hefur SAS flug á þessari flugleið í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi.
Um 437 þúsund farþegar nýttu sér áætlunarferðir milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar í fyrra og fjölgaði þeim um sex af hundraði frá árinu á undan. Vélar Icelandair fljúga allt að fimm sinnum á dag til dönsku höfuðborgarinnar og WOW býður upp á eina til tvær ferðir. Framboð á flugi héðan til Kaupmannahafnar er meira en til annarra borga að Lundúnum undanskildum og hefur flugleiðin staðið undir um tíund af öllum ferðum íslensku félaganna tveggja samkvæmt talningum Túrista. 

Koma frá Kaupmannahöfn og Ósló

Í fyrra var Icelandair fjórtánda stærsta flugfélagið á Kaupmannahafnarflugvelli en þrátt fyrir þessi miklu umsvif íslensku fyrirtækjanna þá hafa þau ekki fengið samkeppni frá dönskum eða skandinavískum félögum. Á því verður hins vegar breyting í dag þegar SAS, stærsta flugfélag Norðurlanda, hefur flug til Íslands frá dönsku höfuðborginni. Mun félagið fljúga hingað daglega, allt árið um kring, líkt og það hefur gert frá Ósló um langt skeið. Með tilkomu SAS eykst framboð á ferðum héðan til Kaupmannahafnar töluvert og í júlí nk. fjölgar brottförunum til að mynda úr 172 í 195 eða um ríflega sjö af hundraði eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.

Ísland ört stækkandi markaður

Að sögn Anna Nielsen, talskonu SAS, þá hefur Íslandsflugið fengið mjög fínar viðtökur og sérstaklega nú í kringum páskana. „Flugleiðin til Íslands frá Kaupmannahöfn hefur verið ein af þeim stærstu sem SAS hefur ekki verið með eigin áætlun á um langt skeið. En þar sem Ísland er ört stækkandi markaður trúum við að það sé pláss fyrir aukið framboð og sérstaklega þegar horft er til þess öfluga leiðakerfis sem við starfrækjum út um alla Skandinavíu og N-Evrópu.” Í Kaupmannahöfn er SAS langumsvifamesta flugfélagið með um 39 prósent af heildarfarþegafjöldanum í þessari stærstu flughöfn Norðurlanda.

Icelandair með þrjár af hverjum fjórum

Um helmingur farþega Icelandair eru farþegar sem fljúga með félaginu yfir hafið og millilenda aðeins á Íslandi og hlutfall þessa hóps mun vera álíka hátt hjá WOW air. Það er því óhætt að fullyrða að stór hluti þeirra sem nýtt hafa sér áætlunarflug íslensku félaganna til og frá Kaupmannahöfn hafa aðeins millilent á Keflavíkurflugvelli. Öðru máli gegnir um farþega erlendu flugfélaganna sem hingað fljúga því þeir eru í langflestum erlendir ferðamenn og svo íslenskir farþegar. Það mun líklega einnig eiga við um farþega í Kaupmannahafnarflugi SAS en í fyrra stóð fjöldi danskra ferðamanna hér á landi í stað. Sú þróun gæti snúist við með auknum umsvifum þessa stærsta flugfélags Norðurlanda á Keflavíkurflugvelli. Það verður einnig áhugavert að sjá hvaða áhrif Kaupmannahafnarflug SAS hefur á vægi Icelandair og WOW á þessari flugleið. Hlutdeild félaganna hefur nefnilega nánast staðið í stað síðustu ár, þrír af hverjum fjórum hafa flogið með Icelandair og fjórðungur með WOW.

SMÁAUGLÝSINGAR FERÐAÞJÓNUSTUNNAR: Húsnæði við Keflavíkurflugvöll til leigu