Mikil aukning í flugi héðan til Parísar

Þrjú flugfélög fljúga héðan til höfuðborgar Frakklands og öll bæta þau verulega við áætlun ársins.

orly paris

Í gær fór Icelandair jómfrúarferð sína til Orly flugvallar í París og mun fljúga þangað allt að sex sinnum í viku allt árið um kring. Þrátt fyrir þessa miklu viðbót þá heldur Icelandair áfram að fljúga tvær til þrjár ferðir á dag til Charles de Gaulle flugvallar og þar með fjölgar ferðum félagsins til höfuðborgar Frakklands verulega milli ára. Félagið er þó ekki eina sem bætir í Parísarflugið því það gera einnig WOW air og Transavia. Síðarnefnda félagið mun til dæmis í fyrsta skipti í ár fljúga hingað um vor og haust en hingað til hefur félagið aðeins boðið upp á Íslandsferðir yfir sumarmánuðina.
Með öllum þessum aukaferðum eykst framboð á flugi milli Íslands og Parísar umtalsvert á næstu mánuðum. Í júlí fjölgar ferðunum um fjórðung og í október nemur aukningin 85 prósentum samkvæmt talningum Túrista.

Lenda nær miðborg Parísar

Charles de Gaulle er næststærsti flugvöllur Evrópu en í fyrra nam farþegafjöldinn þar 66 milljónum en á sama tíma fóru þrjátíu milljónir farþega um Orly flugstöðina. Stærðarmunurinn á þessum tveimur stærstu flugvöllum Frakklands er því mikill en framboð á innanlandsflugi er hins vegar mun meira frá Orly en Charles de Gaulle. Á þeim síðarnefnda er hlutfall farþega í innanlandsflugi til að mynda innan við tíund en nærri helmingur þeirra sem fara um Orly eru á ferðalagi innan Frakklands. Mikið úrval af innanlandsflugi er þó ekki það eina sem Orly hefur framyfir Charles de Gaulle að mati flugvallarstjórans. „Hér á Orly njóta farþegar Icelandair þess að París er mjög skammt frá, flugstöðin er þægileg, brottfararhliðin eru stutt frá götunni og þoturnar þurfa ekki að keyra eftir löngum flugbrautum,” segir í svari Franck Mereyde, flugvallarstjóra Orly, til Túrista.

Fengu óvænt flugtíma

Þó umsvif Icelandair hafi lengi verið mikil í París þá höfðu forsvarsmenn félagsins sótt um lendingarleyfi við Orly síðustu tvö ár en ekki fengið að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Tímarnir fyrir sumaráætlunina, sem hófst á páskadag, komu hins vegar upp í hendur félagsins með stuttum fyrirvara eftir rússneska flugfélagið Transaero varð gjaldþrota. Að sögn Guðjóns var strax mikill áhugi á því að bæta Orly við leiðakerfi Icelandair en það hafi hins vegar tekið smá tíma að ákveða hvernig það yrði gert með stuttum fyrirvara.

Styrkir stöðuna í Montreal

Flugleiðin til Orly er sú þriðja sem bæst hefur við hjá Icelandair í ár en í vor hefur félagið svo flug til Montreal í Kanada. Sú borg er sú stærsta í hinni frönskumælandi Quebec og telur Guðjón að það styrki stöðu Icelandair í Montreal að geta boðið upp á flug til Orly þar sem í dag er ekki flogið beint milli Montreal og Orly allt árið um kring. Hins vegar fljúga bæði Air Canada og Air France, stærstu flugfélög landanna tveggja, daglega eða oftar milli Montreal og Charles de Gaulle.
Þess má geta að WOW air mun einnig hefja flug til Montreal í maí næstkomandi og heimahöfn félagsins í París er Charles de Gaulle flugvöllur.