Íslenskar þotur áberandi við flugstöðina í Tenerife

tenerife flugvollur sighvatur ottarr

Á áttatíu mínútna kafla á þriðjudögum fljúga þrjár stórar farþegaþotur héðan til eyjunnar Tenerife. Íslensk flugfélög eru því áberandi á þessum spænska flugvelli. 
Kukkan korter í níu á þriðjudagsmorgnum tekur farþegaþota Primera Air á loft frá Keflavíkurflugvelli og setur stefnuna á Tenerife. Þremur korterum síðar fer vél Icelandair sömu leið og fimm mínútur yfir tíu er röðin komin að brottför WOW air til Tenerife.
Í þessum þremur þotum eru sæti fyrir um 550 farþega og þau eru nær eingöngu skipuð íslenskum farþegum því ferðamannastraumurinn frá Kanaríeyjum til Íslands er nánast enginn.
Á laugardögum flýgur WOW air svo aðra ferð til Tenerife og næstu mánuði er því hægt að fljúga um þrjú þúsund Íslendingum í mánuði til Tenerife. Við þetta bætast svo leiguflug og áætlunarflug til Las Palmas á Kanarí. 
Framboð á ferðum til eyjanna tveggja er því mikið um þessar mundir og nærri tvöfalt meira en það var á sama tíma í fyrra. Hver staðan verður á þessu flugi næsta vetur á eftir að koma í ljós en eitt er víst að þotur íslenskra flugfélaga eru áberandi á flugvellinum í Tenerife á þriðjudögum eins og sjá má á þessari mynd hér fyrir ofan sem Sighvatur Óttarr Elefsen tók síðastliðinn þriðjudag.
SMÁAUGLÝSINGAR FERÐAÞJÓNUSTUNNAR: Húsnæði við Keflavíkurflugvöll til leigu