Kaupmannahafnarflug frá Akureyri verður ekki að veruleika í ár

akureyri kaupmannahofn

Það þarf lengri tíma til að koma á reglulegu millilandaflugi frá höfuðstað Norðurlands. Það þarf lengri tíma til að koma á reglulegu millilandaflugi frá höfuðstað Norðurlands. 
Millilandaflug frá Akureyrarflugvelli hefur verið af skornum skammti síðustu ár og nær eingöngu takmarkast við leiguflug á vegum ferðaskrifstofa eftir að Iceland Express hætti áætlunarferðum þaðan sumarið 2012. Fyrirtækið hafði þá um árabil boðið upp á reglulegt flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar yfir sumarmánuðina. Undanfarin ár hafa forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic unnið að því að koma á beinum samgöngum milli Norðurlands og Danmerkur á ný og stóð til að bjóða upp á vikulegar ferðir í sumar í samstarfi við ríkisflugfélag Eistlands. Nú er hins vegar ljóst að ekki verður úr þessum áformum í ár þar sem forsvarsmenn Trans-Atlantic telja ólíklegt að samstaða náist meðal hagsmunaðila hér á landi um verkefnið á næstunni samkvæmt því sem segir í svari til Túrista. „Trans-Atlantic telur samt allar forsendur fyrir uppsetningu flugs vera áfram óbreyttar og til staðar en ljóst að meiri tíma þarf til þess að ná að samræma aðkomu hinna ýmsu aðila sem hafa verið í viðræðum um það. Er því horft til þess að flug hefjist 2017 en að sala og kynning á því erlendis hefjist á haustmánuðum.“ Í svarinu segir jafnframt að millilandaflug frá Akureyri sé gríðarlegt hagsmunamál fyrir svæðið en tryggja þurfi grunn fyrir heilsársflug þaðan á komandi árum.

Egilsstaðir-London í sumar

Í haust skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins tillögum að því hvernig hægt væri að efla millilandaflug frá Akureyri og Egilsstöðum og var niðurstaðan m.a. sú að veita aðilum markaðsstyrki og fella niður í flugvallargjöld til nokkurra ára. Samkvæmt frétt Rúv þá er hins vegar ekki víst að þessir styrkir verði í boði á þessu ári. Þrátt fyrir það verður starfrækt áætlunarflug milli Egilsstaða og Lundúna í sumar að frumkvæði bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World. Það eru ferðaskrifstofunnar Fjallasýn og Tanni Travel sem halda utan um flugið frá Íslandi til Bretlands og hægt er að bóka miða á heimasíðunni FlyEurope.is. Þar kemur fram að farmiði, báðar leiðir, kosti 74 þúsund krónur.