Keflavíkurflugvöllur meðal þeirra bestu í Evrópu

kef farthegar

Þó farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgi hratt milli ára þá kemur þjónustan á vellinum vel út í alþjóðlegri athugun. Þó farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgi hratt milli ára þá kemur þjónustan á vellinum vel út í alþjóðlegri athugun. 
Keflavíkurflugvöllur er í hópi bestu flugvalla Evrópu árið 2015 samkvæmt þjónustukönnun alþjóðasamtaka flugvalla, ACI. Íslenska flughöfnin deilir þriðja sætinu í Evrópu með Kaupmannahafnarflugvelli, Heathrow í London og flugvöllunum í Vín og Porto. Í fyrsta sæti eru hins vegar þrír rússneskir flugvellir; Sheremetyevo í Moskvu, Pulkovo í Sankti-Pétursborg og flugstöðin í Ólymíuborginni Sochi. Öðru sætinu deila flugvellirnir í Prag, Zurich, Dublin og á Möltu.

Sumarið erfitt á köflum

Flugstöð Leifs Eiríkssonar er því ein af þeim 12 evrópsku flughöfnum sem fær bestu umsögn hjá þeim flugfarþegum sem tóku þátt í athugun ACI. Samkvæmt tilkyningu frá Isavia þá nær könnunin yfir alla þætti ferðarinnar um flugvöllinn, hvort sem er innritun, öryggisleit, þjónusta í verslunum og veitingastöðum, vegabréfaeftirlit, tollskoðun og aðra þjónustu.
„Árið 2015 var stærsta ár í sögu flugvallarins og háannatímar sumarsins voru á stundum erfiðir fyrir farþega og starfsfólk vegna mikils farþegafjölda og yfirstandandi framkvæmda. Starfsfólk Isavia og rekstraraðila í flugstöðinni stóð sig frábærlega í að takast á við þá áskorun og það sést glögglega í því að þrátt fyrir að komið hafi upp tímabil þar sem raðir voru lengri en við viljum sjá og þrengslin stundum mikil þá höldum við okkur í toppsæti yfir flugvelli Evrópu. Ljóst er samkvæmt nýjustu farþegaspá okkar að farþegum um flugvöllinn mun enn fjölga og nú gerum við ráð fyrir 37 prósent fleiri farþegum í ár en fóru um flugvöllinn í fyrra. Við höfum undirbúið okkur vel undir sumarið bæði með miklum framkvæmdum og fjölgun starfsfólks og við viljum auðvitað halda okkur áfram í toppnum,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia, í tilkynningunni.