Leggja áherslu á millilandaflug frá Akureyri yfir vetrarmánuðina

akureyri egilsstadir

Áfram er samt unnið að því að koma á áætlunarferðum frá höfuðstað Norðurlands til útlanda. Ekkert verður úr áformum um beint flug milli Kaupmannahafnar og Akureyrar í sumar. Áfram er samt unnið að því að koma á áætlunarferðum frá höfuðstað Norðurlands til útlanda.
Í sumar stóð til að flogið yrði einu sinni í viku frá Akureyri til höfuðborgar Danmerkur á vegum ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic en millilandaflug frá þessum þriðja stærsta flugvelli landsins hefur takmarkast við óreglulegt leiguflug síðustu ár. Forsvarsmenn Trans-Atlantic segja þó ólíklegt að samstaða náist meðal hagsmunaðila hér á landi um verkefnið á næstunni og því verður það ekki að veruleika í ár líkt og Túristi greindi frá. Hins vegar er áfram unnið að því að starfrækja þessa flugleið á næsta ári. 

Beðið eftir flugþróunarsjóði

„Það eru að sjálfsögðu ekki góðar fréttir að ekki náist að koma á millilandaflugi til Kaupmannahafnar í sumar en við vinnum enn að fullum krafti að því að markaðssetja Norðurland fyrir flugfélögum,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, aðspurð um stöðuna á millilandaflugi frá Akureyri. Að sögn Arnheiðar er lögð áhersla á að koma á millilandaflugi þaðan að vetri til og á borðinu eru nokkur verkefni sem tengjast reglulegu flugi til lengri tíma og leiguflugi. „Við bíðum nú tíðinda af flugþróunarsjóði sem mun standa til boða á þessu ári og verður til þess að styðja við verkefnin,“ bætir Arnheiður við. En sl. haust skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins tillögum að því hvernig hægt væri að efla millilandaflug frá Akureyri og Egilsstöðum. Niðurstaðan m.a. sú að veita aðilum markaðsstyrki og fella niður í flugvallargjöld til nokkurra ára. Nánari útlistanir á því hvernig að staðið verður að veitingu þessara styrkja liggja ekki fyrir. Þrátt fyrir það verður starfrækt áætlunarflug milli Egilsstaða og Lundúna í sumar að frumkvæði bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World. Það eru ferðaskrifstofunnar Fjallasýn og Tanni Travel sem halda utan um flugið frá Íslandi til Bretlands og hægt er að bóka miða á heimasíðunni FlyEurope.is. Þar kemur fram að farmiði, báðar leiðir, kosti 74 þúsund krónur.