Nú geturðu tekið lestina til Denver

denver flugvollur

Góðar almenningssamgöngur milli flughafna og miðborga spara ferðafólki ekki bara pening heldur líka tíma. Góðar almenningssamgöngur milli flughafna og miðborga spara ferðafólki ekki bara pening heldur líka tíma. Nú er stutt í að lestarspor nái alla leið út á flugstöðina í Denver.
Flugrúturnar í Denver og Reykjavík eiga það sameiginlegt að það tekur þær að minnsta kosti þrjú korter að komast út á flugstöð. Leigubílarnir eru fljótari en þar sem umferðin inn í bandarísku borgina er stundum þung þá getur skutlið orðið dýrt nema samið hafi verið um fast verð. 

Umhverfisvænni leið

Lestarsamgöngur eru hins vegar oftast á áætlun og síðustu ár hefur verið unnið að því að tengja flugvöllinn í Denver við lestarspor borgarinnar. Ekki eingöngu til að stytta ferðatímann heldur líka til að draga úr mengun því lestir eru mun umhverfisvænni farartæki en einkabílar.

Almenningssamgöngur alla leið

Þetta mikla verk er nú á lokametrunum og frá og með 22. apríl verður hægt að fara með lest milli flugstöðvarinnar og miðborgar Denver. Ferðalagið mun taka 37 mínútur og stoppar lestin nokkrum sinnum á leiðinni áður en hún rennur í hlað við Union Station sem er nýuppgerð lestarstöð í miðborg Denver. Frá endastöðinni má fá frítt far með MetroRide vögnunum í átt að hóteli eða halda ferðalaginu áfram með lest eða rútu. Miði í nýju flugvallarlestina kostar 9 dollara (um 1.120 kr) og eiga farþegar að geta komið farangri fyrir með auðveldum hætti inn í lestinni.
Icelandair hóf að fljúga til Denver fyrir nærri fjórum árum síðan og býður upp á beint áætlunarflug allt árið um kring. Í nágrenni við borgina eru nokkur af þekktari skíðasvæðum N-Ameríku, t.d. Vail og Aspen og boðið er upp á rútuferðir upp í fjöllinn frá flugvellinum en líka miðborg Denver. Það er því ekki nauðsynlegt að leigja bíl í Denver þó ætlunin sé að fara á skíði í næsta nágrenni.
TENGDAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúrunaBjórborgin Denver