Vasaþjófar auka umsvif sín í Berlín

berlin s 860

Það er vissara að passa vel upp á verðmæti þegar ferðast er í höfuðborg Þýskalands. Það er vissara að passa vel upp á verðmæti þegar ferðast er í höfuðborg Þýskalands.
Ferðamenn eru víða skotmark smáþjófa og því miður verða þess háttar rán sífellt algengari í Berlín. Í fyrra voru t.a.m. lagðar inn um 40 þúsund kærur vegna vasaþjófnaðar í borginni sem er aukning um fjórðung frá árinu á undan samkvæmt dagblaðinu Berliner Zeitung. Þar kemur jafnframt fram að hinir fingralöngu eru stórtækastir á vinsælum ferðamannasvæðum eins og við Brandenburgarhliðið, á Potsdamer Plats og í almenningssamgangnakerfinu. Stórir mannfagnaðir á gamlárskvöld og hið árlega maraþon borgarinnar eru einnig góðar vertíðir fyrir vasaþjófa.

Fáir gripnir

Það eru hins vegar ekki aðeins vasar og töskur ferðamanna sem þjófarnir sitja um því í fyrra hurfu líka óvenju mörg reiðhjól eða um 90 á dag. Lögreglan í Berlín er því önnum kafin vegna allra þessara mála en árangurinn lætur á sér standa því að jafnaði tekst aðeins að hafa hendur í hári þjófanna í fjórum tilfellum af hverjum eitt hundrað.

Færri árásir

Víða í Berlín er ekki hægt að borga fyrir þjónustu með greiðslukortum og því þurfa ferðamenn að hafa nokkuð af reiðufé á sér. Það þekkja smákrimmarnir mætavel og reyna því frekar við ferðafólk en heimamenn. En þó þróunin sé slæm á þessu sviði þá hefur ofbeldisfullum ránum fækkað í þýsku höfuðborginni og hefur fjöldi þeirra helmingast sl. áratug samkvæmt frétt þýska blaðsins.