Airbnb opnar fyrir kvartanir frá nágrönnum

Í dag fá næstum allir leigusalar á vef Airbnb hæstu einkunn en á því kann að verða breyting. Í dag fá næstum allir leigusalar á vef Airbnb hæstu einkunn en á því kann að verða breyting.
Af einkunnunum að dæma þá standa gistisalar á vef Airbnb sig framúrskarandi vel því 95 prósent þeirra eru með toppeinkunn (4,5 eða 5). Aðeins sárafáir eru með minna en 3,5 í meðaleinkunn en til samanburðar fá gistikostir á vef Tripadvisor að jafnaði 3,8. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var við Boston háskóla sl. vor. Ein ástæða fyrir þessum góðu dómum er talin vera sú að leigusalar Airbnb gefa líka gestum sínum einkunn. Leigutaki sem lætur óánægju sína í ljós á því á hættu að fá slæma umsögn um sig sjálfan og þar með minnka líkurnar á að viðkomandi fái aftur leigt í gegnum Airbnb. Leigusalar hunsi einfaldlega umsóknir frá þeim notendum sem ekki hafa verið ausnir lofi.

Nágrannar geta loks kvartað

Umsagnir á vef Airbnb gætu hins vegar tekið nokkrum breytingum á næstunni því forsvarsmenn fyrirtækisins hyggjast gefa nágrönnum kost á að setja inn athugasemdir við eignir sem leigðar eru út í nágrenni við þá. Ef slæm umgegni, partíhald eða eitthvað annað fer fyrir brjóstið á nágrönnunum þá fá þeir kost á að senda inn kvörtun til Airbnb sem gæti í framhaldinu haft áhrif á möguleika fólks til að leigja út eignir sínar samkvæmt frétt Jótlandspóstsins. Hingað til hafa ósáttir nágrannar ekki getað komið á framfæri óánægju sinni en telja má næsta víst að einhverjir eru ósáttir við að íbúðir í fjölbýlishúsum séu nýttar í skammtímaleigu líkt og nýr dómur hér á landi sýnir.