Farþegar sautján af þeim 20 flugfélögum sem bjóða upp á áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli þurfa að borga sérstaklega fyrir að tryggja sér sæti um borð. Töskugjöld eru líka algeng.
Það farmiðaverð sem birtist í auglýsingum flugfélaganna hækkar auðveldlega um þúsundir, ef ekki tugþúsundir króna, þegar farþegarnir taka með sér farangur, velja sér sæti og borga með kreditkorti.
Þess háttar aukagjöld verða sífellt algengari í fluggeiranum og einskorðast ekki lengur við lággjaldaflugfélögin svokölluðu. British Airways og Lufthansa, tvö af stærstu og elstu flugfélögum Evrópu, eru til að mynda farin að krefjast aukaþóknunar af þeim farþegum sem fljúga með meira en handfarangur og vilja vera sitja á ákveðnum stað í farþegarýminu. Gjaldskrár flugfélaganna eru hins vegar mjög mismunandi þegar kemur að þessum þáttum sem áður voru alltaf hluti af fargjaldinu. Þannig verða þeir sem fljúga héðan með Wizz Air til A-Evrópu að borga 6.200 krónur, hvora leið, fyrir tösku og 1.900 kr. fyrir stærri handfarangur. WOW air er einnig með handfarangursgjald en önnur félög hafa ekki fylgt því fordæmi. Wizz Air er svo eina félagið sem krefur farþega sína um sérstakt gjald vilji þeir innrita sig í flug með gamla laginu en ekki á netinu. Hjá sumum flugfélögum fá farþegar að velja sér sæti daginn fyrir brottför án aukagreiðslu.
Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá rukkar bróðurpartur flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli aukalega fyrir val á sætum eða 85 prósent þeirra, hlutfallið var 63 prósent í fyrra. Töskugjöld eru hluti af verðskrá 12 af 20 flugfélögum sem er líka aukning frá því í fyrra. Air Greenland, Delta og Icelandair eru einu flugfélögin þar sem farangursheimild, sætisval og bókunar- og kreditkortagjöld eru innifalinn í farmiðaverðinu.
Fleiri flugfélög rukka aukalega fyrir farangur og sætisval
