Björgvin Ingi stiklar á stóru um Chicago

Hann þekkir vel til á nýjasta áfangastað Icelandair í Bandaríkjunum og hefur tekið saman helling af góðum og gagnlegum upplýsingum um stórborgina við Michican vatn.

chicago bio

„Besta borg Bandaríkjanna,“ fullyrðir Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, þegar hann byrjar að lýsa Chicago, borginni sem hann bjó í ásamt fjölskyldu sinni um þriggja ára skeið. Þá sagði hann lesendum Túrista frá hápunktum þessarar þriðju fjölmennustu borg Norður-Ameríku enn á þeim tíma voru hins vegar engar áætlunarferðir í boði milli Íslands og Chicago. Á því varð blessunarlega breyting í lok vetrar þegar Icelandair snéri tilbaka til borgarinnar eftir 28 ára fjarveru. Af því tilefni hefur Björgvin Ingi sett niður á blað á ný alls kyns fróðleik um Chicago sem hann skiptir í þrjá flokka; matur, menning og lífið.

Maturinn

„Chicago hefur upp á allt að bjóða í mat. Þú getur borðað hvaða „cuisine” sem er og ef þú undirbýrð þig vel verður maturinn frábær. Ef þú vilt finna besta matinn frá Eþíopíu eða Búrma þá finnur þú frábæran slíkan með smá undirbúningi. Sem dæmi kemstu fljótt að því að ef þú vilt frábæran indverskan mat ferðu á Devon Ave.“ Þar er Hema’s Kitchen í mestum metum hjá okkar manni en hann mælir líka með indverska fusion flippinu á Vermilion. Avec heitir hins vegar upphálds veitingahús Björvins Inga í Chicago og segir hann það hafa komið sér ánægjulega á óvart þegar einn helsti matarrýnir borgarinnar útnefndi staðinn þann besta í Chicago en ekki þriggja Michelin stjörnustaðinn Alinea. Verðlagið á Avec er nefnilega að minnsta kosti fimm sinnum lægra en á Alinea og Íslendingar sem vilja góðan mat í Chicago ættu því að kanna möguleika á lausum borðum á Avec um leið og flugmiðinn er í höfn.

Fleiri hápunktar á matseðlinum í Chicago að mati Björgvins Inga:
Besta kaffið:
The Wormhole Coffee í Wicker Park. „Hipsterakaffi sem er með gott bakarísdóterí og gæðafíling.“
Undarlegustu upplifunin:
Chocolate milk shake á Wiener Circle. „Ekki skamma mig ef þið farið þessa leið en þetta verður algjörlega einstakt.“
Merkilegasta hamborgara upplifunin:
Kuma’s Corner. „Pönkaðir kokkar taka vel á móti þér   en hætt við að þú þurfir að bíða í klukkutíma eða tvo nema þú mætir eldsnemma.“
Upphálds hamborgarastaðurinn: 
Edzo’s Burger Shop í Evanston. „Um 30 mínútur í norður frá miðbænum. Þar opnaði gúrmekokkurinn Ed 70s hamborgarastað fyrir nokkrum árum með fáránlega góðum borgurum, frönskum sem eru engu líkar og besta sjeik borgarinnar.“

Menningin

„Eins og í alvöru stóborgum er mikið leikhúslíf í Chicago; allt frá þyngri klassískra verka til gleði- og söngleika af ýmsu tagi. Eitt af því sem er skemmtilegast í leikhúslífinu er The Second City grínleikhópurinn þar sem margar stjörnur byrja vegferðina og halda áfram í Saturday Night Live og svo í Hollywood stórmyndir. Marga má nefna sem farið hafa þessa leið en til dæmis byrjuðu Chris Farley og Tina Fey ferilinn í Second City.“ Fáir elska hins vegar íþróttaliðin sín meira en Chicago-búar segir Björgvin Ingi og mæli með að þeir sem ætla á leiki með Bulls, Cubs, Bears eða Fire bóki miða á Ticketmaster eða StubHub!.
„Í Chicago eru frábær söfn. Í miðbænum er hægt að verja mörgum dögum í að fara milli safna eins og Museum of Science and Industry, Field Museum, Adler Planetarium, Shedd Aquarium en hæst trónir þó klárlega The Art Institute of Chicago sem er án efa eitt besta, ef ekki besta, listasafn Bandaríkjanna.“ Shedd Aquarium, Museum of Science and Industry og Chicago Children’s Museum at Navy Pier eru að mati Björgvins Inga bestu barna- og fjölskyldusöfnin í borginni. „Dýragarðurinn Lincoln Park Zoo er líka frábær. Þar kostar ekkert inn, hann er í mjög skemmtilegu hverfi, Lincoln Park, skammt frá miðbænum og góðar almenningssamgöngur eru þangað þannig að það er engin ástæða til að leggja í rándýru bílastæði við garðinn.“
Sinfoníuhljómsveit Chicago mun vera sú besta í Bandaríkjunum að mati fróðra og segir Björgvin að tónleikalíf borgarinnar sé frábært og urmull góðra tónleikastaða, t.d. hið sögufræga Chicago Theatre auk Lincoln Hall, The Vic, The Metro, Riviera Theater og minni staðir eins og Schubas Tavern. „Á sumrin eru skemmtilegir og oft ókeypis útitónleika vikulega á frábæru útitónleikasvæði í Millenium Park í miðbænum og sömuleiðis áhugaverð útitónleikahátíð flestar helgar um 30 mínútur norður, Ravinia, þar sem gamlir meistarar troða gjarnan upp á sumrin.Hápunktur tónlistarlífsins er að mínum dómi Lollapalooza hátíðin sem fer fram í Grant Park í miðbænum í byrjun ágúst og er lang skemmtilegasta tónlistarhátíð sem ég hef farið á. Miðar seljast jafnan um leið og þeir fara í sölu en yfirleitt er hægt að kaupa miða skömmu áður á eftirmarkaði engu að síður.“

Búðir, ferðamannagildrur og ýmislegt annað

„Á sumrin er ótrúlega gaman að hlaupa meðfram strandlengjunni Lakefront trail og fara á ströndina og njóta blíðunnar. Þó borgin sé ekki við sjó þá gleymirðu því strax því Lake Michigan er svo stórt að það gæti allt eins verið úthaf. Það er algjör skylda hjá öllum sem borgarinnar koma að taka myndir af „skyline-inu” sem er eitt hið fallegasta í Bandaríkjunum og sömuleiðis spegla sig í Bauninni. Skammt frá Bauninni er nútímalistaverkið Crown Fountain þar sem krakkar geta buslað á heitum sumardögum. Gott er að vita af því þegar krakkar þurfa að kæla sig niður á heitum sumardögum,“ segir Björgvin og bætir því við að vinsælt er að fara upp í annan tveggja hæstu turna borgarinnar. „Í Willis Tower (sem enginn heimamaður kallar annað en Sears tower) getur þú farið í Skydeck Chicago, hæsta sess borgarinnar, en það má alveg færa rök fyrir því að skemmtilegra sé að fara upp í John Hancock Observatory og þar sé betra útsýni yfir vatnið og borgina. Okkur þótt rosa gaman í arkitekúrs-bátsferð borgarinnar og best er að fara í “official túrinn” þó margt annað sé í boði.“ Björgvin Ingi ráðleggur samt túristum í borginni að verja tímanum í annað en Navy Pier svæðið nema til að fara á barnasafnið sem þar er. Hann mælir heldur ekki sérstaklega með að fólk leiti uppi „Chicago deep dish pizzur“ eða „Chicago-style hot dog“ og segir hið vinsæla og dýra Garrett Popcorn ekki vera biðarinnar virði.
Búðarölt er hluti af dagskrá borgarferða hjá mörgum ferðalöngum og þó Björgvin Ingi segist ekki vera sérfræðingur í verslu þá bendir hann á breiðgötuna Magnificent Mile í miðborginni og The Merchandise Mart verslunarmiðstöðina en er fljótur að snúa sér að öðru en búðunum. „Ef þú nennir ekki að kíkja í búðir þá er góð hugmynd að kíkja upp í frumkvöðlasetrið 1871 í kaffi og sjá ólgandi sköpunarkraftinn hjá fjölmörgum brjálæðislega flottum frumkvöðlunum. Þú gætir líka reynt að stíla inn á að kíkja á einhvern flottan viðburð hjá 1871 eða hitta á fólkið á bak við viðskiptahraðlana Techstars Chicago eða Impact Engine.“

Að lokum þetta

„Chicago er almennt séð ekki hættulegri en aðrar stórborgir og eru glæpir borgarinnar lang flestir framdir á fáum afmörkuðum stöðum í borginni sem gerir alfaraleið yfirleitt nokkuð góða. Almenna reglan er að þú vilt ekki fara mikið suður af miðborginni, nema kannski helst ef þú ætlar að skella þér á leik með White Sox á Comiskey Park (U. S Cellular Field), en aðeins einn af fjórum hættulegustu blettum borgarinnar er ekki í suðurhlutanum, heldur vestur af miðborginni.“
Á bloggsíðu Björgvins Inga má finna enn ítarlegri upplýsingar um allt hér að ofan og ýmislegt meira. Icelandair flýgur til Chicago allt árið um kring.