Ástæða til að staldra við aukningu breskra og bandarískra ferðamanna

island jokulsarlon

Meira en helmingur þeirra útlendinga sem hafa heimsótt Ísland í ár hafa komið frá annað hvort frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Meira en helmingur þeirra útlendinga sem hafa heimsótt Ísland í ár hafa komið frá annað hvort frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Talsmaður Samtaka ferðaþjónustunnar segist vilja fá ferðamenn frá fleiri löndum til að dreifa áhættunni.
Fyrstu þrjá mánuði ársins komu hingað til lands rúmlega 294 þúsund erlendir ferðamenn eða 77 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Leifsstöð. Aukningin nemur meira en þriðjungi og er meiri en á sama tíma í fyrra sem þýðir að ferðafólki fjölgar hraðar í ár. Tvær þjóðir standa hins vegar undir bróðurparti þessarar fjölgunar því af þessum viðbótar 77 þúsund erlendu ferðamönnum þá komu um 50 þúsund frá Bretlandi og Bandaríkjunum eða tveir þriðju af aukningunni. Í heildina voru breskir og bandarískir túristar 55 prósent af heildarfjölda ferðamanna hér á landi fyrstu þrjá mánuði ársins en vægi þeirra var rétt um helmingur á sama tíma í fyrra.

Miklu hærra hlutfall en í Skandinavíu

Á Íslandi einskorðast millilandaflug nær eingöngu við Keflavíkurflugvöll og talning flugfarþega þar gefur því góða mynd af því hverrar þjóðar ferðamenn hér á landi eru. Í löndunum í kringum okkur eru flugvellirnir fleiri og þangað komast ferðamenn líka landleiðina. Upplýsingar um þjóðerni þeirra sem kaupa sér gistingu í hverju landi eru því oftast notaðar til að fá mynd af samsetningu ferðamanna í stað talna um flugfarþega. Þegar bornar eru saman tölur norrænna hagstofa yfir gistinætur útlendinga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi kemur í ljóst að vægi Breta og Bandaríkjamanna var langhæst hér á landi eða 43,6 prósent. Í Noregi var það 12,8 prósent og minna í Danmörku og Svíþjóð eins og sjá má hér fyrir neðan. 

Of fá egg í sömu körfu

Aðspurður um hvort þetta mikla vægi breskra og bandarískra hér á landi sé áhyggjuefni segir Skapti Örn Ólafsson, talsmaður Samtaka ferðaþjónustunnar, að aukningin valdi kannski ekki áhyggjum en gefi ástæðu til að staldra við. „Það er aldrei gott að treysta um of á fá egg í sömu körfu. Við viljum auðvitað fá ferðamenn frá sem flestum löndum til að dreifa áhættunni. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að ferðamönnum frá Bretlandi og Bandaríkjunum er að fjölga utan svokallaðrar háannar. Má því segja að markaðssetning á Íslandi sem vetraráfangastaður sé að ganga eftir og hefur þessi aukning gert það að verkum að ferðaþjónusta yfir vetrartímann er að styrkjast enn frekar.“ Nefnir Skapti sem dæmi að í verkefninu „Ísland-allt árið“ hafi verið lögð áhersla á að styrkja stöðu Íslands á mörkuðum í Kanada, Þýskalandi, Frakklandi, Sviss og Norðurlöndunum auk Bandaríkjanna og í Bretlandi.

406 fleiri flugferðir til Bretlands og Bandaríkjanna

Aukin flugumferð er forsenda fyrir þessari miklu fjölgun ferðafólks og fyrstu þrjá mánuði ársins voru farnar 31 prósent fleiri áætlunarferðir en á sama tíma í fyrra. Sveiflur í flugi haldast sem sagt í hendur við breytingar á ferðamannafjöldanum. Mest var hins vegar bætt við ferðirnar til bandarískra áfangastaða því þær voru um helmingi fleiri en í fyrra og umferðin til Bretlands jókst um fimmtung samkvæmt daglegum talningum Túrista á áætlunarflugi til og frá Keflavíkurflugvelli.