Ferðamannastraumurinn eykst hraðar en í fyrra

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði túristum hér á landi um meira en þriðjung og vægi Breta og Bandaríkjamanna hækkar. Á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði túristum hér á landi um meira en þriðjung og vægi Breta og Bandaríkjamanna hækkar.
115.808 erlendir ferðamenn flugu frá Keflavíkurflugvelli í marsmánuði en þeir voru 83.855 á sama tíma í fyrra. Aukning nemur 38,1 prósenti sem er aðeins minni viðbót en varð í febrúar en í janúar nam hún nærri fjórðungi samkvæmt talningum Ferðamálastofu.
Fyrstu þrjá mánuði ársins komu samtals um 294 þúsund túristar eða 77 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra. Viðbótin nemur 35,5 prósentum. Til samanburðar nam aukningin á fyrsta ársfjórðungi í fyrra 31,4 prósentum. Ferðafólki á Íslandi fjölgar því hraðar í ár en á sama tíma í fyrra.

Háðari Bandaríkjunum og Bretlandi

Af þessum viðbótar 77 þúsund erlendu ferðamönnum sem hingað komu á fyrsta ársfjórðungi bættust við nærri 50 þúsund frá Bretlandi og Bandaríkjunum eða 64,5 prósent af heildaraukningunni. Mikilvægi þessara tveggja þjóða fyrir íslenska ferðaþjónustu heldur því áfram að aukast því fyrstu þrjá mánuðina í fyrra voru þeir 51,5 prósent af heildinni en hlutfallið í ár er 55 prósent.
Skýringin á þessari aukningu liggur m.a. í mun meira framboði á flugi héðan til landanna tveggja. Í mars í fyrra buðu til að mynda Delta og WOW ekki upp á beint flug héðan til Bandaríkjanna líkt og þau gera nú. Til Bretlands hefur ferðunum líka fjölgað, til dæmis með flugi British Airways frá Heathrow í London og í byrjun síðasta mánaðar fór Icelandair jómfrúarferð sína til Aberdeen. Sterkt gengi dollars og breska pundsins síðustu misseri hefur líka áhrif enda hefur eftirspurn eftir utanlandsferðum aukist nokkru meira í þessum tveimur löndum en annars staðar á Vesturlöndum samkvæmt alþjóðlegum samanburði. Það kemur íslensku ferðaþjónustunni til góða en á sama tíma verður hún ennþá háðari ferðamannastraumnum frá Bandaríkjunum og Bretlandi.

Meira en tvöfalt fleiri Spánverjar

Það vekur einnig athygli að í mars þá komu hingað nærri sautján hundruð Spánverjar en þeir voru rúmlega sjö hundruð í mars í fyrra. Aukningin nemur 133,4 prósentum og liggur skýringin líklega í bættum flugsamgöngum milli meginlands Spánar og Íslands yfir páskana. Í mars í fyrra voru aðeins 4 ferðir farnar héðan til Barcelona og Alicante en þær voru fjórum sinnum fleiri í síðasta mánuði eða 16 talsins. Svisslendingum fjölgaði einnig á ný í mars eftir að áætlunarflug milli Íslands og Sviss hófst á ný eftir að hafa legið niður í vetur. Það hafði þau áhrif að ferðamönnum þaðan fækkaði um helming. En þó ekki sé flogið héðan til Japan eða Kína þá heldur ferðamönnum þaðan að fjölga verulega á milli ára.