Bæta við fjórðu flugleiðinni til Íslands

Fjölbreytni leiðakerfis Keflavíkurflugvallar eykst með auknum umsvifum eins stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu.

wizz budapest

Áætlunarflug héðan til austurhluta Evrópu hefur verið mjög lítið og takmarkast við sumarflug WOW air til höfuðborga Póllands og Litháen eftir að Rússlandsflug Icelandair var lagt niður í hittifyrra. Síðastliðið vor hóf hins vegar ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air að bjóða upp á áætlunarflug hingað frá Gdansk í Póllandi og nýverið bættust við reglulegar ferðir hingað frá Varsjá og Búdapest á vegum félagsins. Í lok október fer Wizz Air svo jómfrúarferð sína hingað frá Vilnius og mun starfrækja þá flugleið allt árið um kring. WOW air flýgur vikulega til Vilnius yfir sumarmánuðina og Wizz air verður því fyrsta félagið sem býður upp á vetrarflug milli Litháen og Íslands.

Skoða fleiri áfangastaði

Það stefnir því í að Wizz Air verði eitt umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi yfir vetrarmánuðina en félagið er fimmta stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Gabor Vasarhelyi, talskona þess, segist aðspurð ekki útiloka að flugið til Íslands eigi eftir að aukast enn frekar enda séu forsvarsmenn félagsins sífellt í viðræðum við flugvelli um hugsanlegar nýjar leiðir. Wizz Air er í dag með starfsstöðvar á 25 flugvöllum í austurhluta Evrópu og flýgur þaðan til fjölmargra áfangastaða um alla álfuna. Með auknum umsvifum félagsins hér á landi aukast því líkurnar á að borgir í Rúmeníu, Serbíu, Úkraínu og víðar bætist við þá staði sem flogið er beint til frá Keflavíkurflugvelli.

Hvað með Prag?

Ekkert varð úr áformum Czech Airlines, stærsta flugfélags Tékklands, um áætlunarflug hingað frá Prag í sumar þrátt fyrir mikinn áhuga tékkneskra ferðaskrifstofa á Íslandsferðum. Wizz Air er hins vegar með starfsemi í Prag en talskona félagsins vill hins vegar ekki segja til um hvort flug þaðan til Íslands sé á teikniborðinu. Íslenskar ferðaskrifstofur hafa lengi boðið upp á pakkaferðir til Prag og Iceland Express flaug þangað eina sumarvertíð.
Þess má geta að í sumar verður í fyrsta skipti hægt að fljúga héðan til Riga í Lettlandi en það er flugfélagið AirBaltic sem mun starfrækja það í allt sumar.