Gera farþegum kleift að leggjast í áfengissortir í Fríhöfninni

vin farangur Angelina litvin

Við komuna til landsins verður mögulegt að kaupa meira af bjór og léttvíni en einn lítri af sterku áfengi fer langleiðina með að klára tollinn. Við komuna til landsins verður mögulegt að kaupa meira af bjór og léttvíni en einn lítri af sterku áfengi fer langleiðina með að klára tollinn.
Í komuversluninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru skýringamyndir sem sýna hvernig farþegar geta nýtt sér allan áfengiskvótann eins og það er orðað í kynningarefni Fríhafnarinnar. Þar eru  útskýrðar þær fimm mismunandi leiðir sem færar eru til að blanda saman áfengisflokkum miðað við lög um tollfrjáls kaup á áfengi. Þessar ólíku samsetningar á bjórkippum, léttvíni og sterku áfengi valda líklega heilabrotum hjá ófáum íslenskum farþegum og eru vafalítið framandi fyrir þá erlendu. Þetta leiðakerfi gæti hins vegar brátt heyrt sögunni til því nýtt frumvarp fjármálaráðherra felur í sér breytingar á tollinum svokallaða í þá átt að hann verði hér eftir miðaður við 6 einingar. Farþegar geta þá blandað saman áfengisflokkum eins og þeir vilja í stað þess að fylgja þessum föstu leiðum sem eru í gildi í dag.
Samkvæmt frumvarpinu telst 1 eining vera; 3 lítrar af bjór, ein 0,75 cl léttvínsflaska eða 0,25 cl af sterku áfengi (meira en 22%). Hálfs lítra kippa af bjór verður þá ein eining og flaska með einum lítra af sterku áfengi er þá 4 einingar. Í frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að miða magn af léttvíni við hefðbundnar vínflöskur sem eru 0,75 cl en ekki 1 lítri líkt og gert er í dag. 

Tvær kippur í viðbót

Ef þessar breytingar verða samþykktar á Alþingi þá rýmkar töluvert kvótinn fyrir bjór og léttvín. Sá sem í dag fullnýtir tollinn sinn til að kaupa öl mun eftir breytingar geta keypt 6 stórar kippur í stað fjögurra, eða 18 lítra í stað 12. Farþegi sem vill aðeins léttvín getur á sama tíma keypt sex flöskur í stað þess að taka fjórar slíkar og svo bjórkippur til að nýta alla heimildina. Hins vegar þurfa þeir sem kaupa einn lítra af sterku að sætta sig við minna af bjór og víni en geta aftur á móti sleppt léttari tegundum og keypt 1,5 lítra af sterku í staðinn. Mörkin fyrir skipverja munu liggja í 11 einingum skv. frumvarpinu á meðan flugáhafnir mega taka með sér 5 einingar.
Frumvarpið er núna hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og frestur til að skila inn umsögnum um það rennur út 29. apríl.