Séríslenskt að eiga bæði flugfélag og hótel

Í sumar opnar hótel á vegum eigenda WOW air en Icelandair hefur lengi verið í þeim geira. Erlendir flugrekekendur eru hins vegar ekki áberandi á þessu sviði.

hotelrum nik lanus

Á gamla varnarliðssvæðinu á Suðurnesjum opnar í sumar hótel í eigu Skúla Mogensen, forstjóra WOW air. Um að ræða lággjaldahótel með eitt hundrað herbergjum og íbúðum en hótelið verður hins vegar ekki kennt við systurfélag sitt, WOW air, að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, talskonu WOW. Hún segir að nafn hótelsins verði kynnt á næstu vikum.
Þess má þó geta að fyrirtækið tryggði sér lénið Wowhotel.is fyrr í þessum mánuði samkvæmt rétthafaskrá Isnic.

Viðskiptamódel sem gengur ekki upp annars staðar

WOW air er annað stærsta flugfélag landsins á eftir Icelandair. Rekstur þess flugfélags hefur lengi verið nátengdur rekstri gististaða og eru Icelandair hótelin í dag næst umsvifamesta hótelkeðja landsins með ríflega 1600 herbergi á sínum snærum. Á Vesturlöndum er hins vegar sjaldgæft að flugfélög tengist rekstri hótela og til að mynda hafa Radisson hótelin ekki verið kennd við skandinavíska flugfélagið SAS síðan árið 2009. Hótelkeðjan easyHotel er heldur ekki lengur undir sama hatti og easyJet flugfélagið en hér á landi er þróunin allt önnur. Skýringin kann að liggja í landfræðilegri stöðu Íslands og lokuðu hagkerfi að mati Jacob Pedersen, yfirmanns greiningardeildar Sydbank í Danmörku. „Almennt virkar það ekki fyrir flugfélög að eiga hótel og þetta er ekki viðskiptamódel sem gengur upp annars staðar í Evrópu en gæti gert það á Íslandi,” segir Pedersen í samtali við Túrista. Hann bætir því að vegna fyrrnefndrar sérstöðu Íslands þá þurfi kannski innlend flugfélög að taka meiri þátt í ferðaþjónustunni en tíðkast annars staðar.

Einbeita sér heldur að fluginu

Hið norska Norwegian hefur stækkað mjög hratt síðustu ár og er annað stærsta flugfélag Norðurlanda. Félagið býður einnig upp á áætlunarferðir til Bandaríkjanna frá höfuðborgum Skandinavíu, London og brátt París og er fyrsta lággjaldaflugið sem verður svo umsvifamikið í flugi yfir hafið. Norwegian flýgur jafnframt hingað til lands frá Ósló og Bergen en Lasse Sandaker Nielsen, talsmaður þess, segir við Túrista að félagið hafi engin áform um að eignast hótel. „Við einbeitum okkur að kjarnastarfseminni sem er að bjóða upp góðar flugsamgöngur á lágu verði.”