Kínverskir ferðamenn að verða fimmti stærsti hópurinn hér á landi

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Hlutfallslega fjölgar kínverskum ferðamönnum hér á landi hraðar en öðrum. Hótelin mæta sérþörfum þessa sístækkandi hóps. Hlutfallslega fjölgar kínverskum ferðamönnum hér á landi hraðar en öðrum. Hótelin mæta sérþörfum þessa sístækkandi hóps.
Hátt í 48 þúsund Kínverjar heimsóttu Ísland í fyrra sem er nærri því tvöföldun frá árinu 2014. Ekkert lát er á þessari hröðu fjölgun kínverska ferðamanna því á fyrsta ársfjórðungi voru þeir fjórða fjölmennsta þjóðin í hópin ferðamanna hér á landi. Aðeins Bretar, Bandaríkjamenn og Þjóðverjar voru fleiri.

Upp fyrir Norðmenn og Dani og brátt Frakka

Í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli eru farþegar flokkaðir eftir sextán þjóðernum og á árunum 2008 til 2011 voru Kínverjar í neðstu sætum listans. Þeir hafa hins vegar færst hratt upp listann síðustu ár og í fyrra voru þeir í sjöunda sæti eins og sjá má hér fyrir neðan.
Telja má næsta öruggt að þeir fari fram úr Norðmönnum og Dönum í ár og endi í fimmta sæti þegar árið verður gert upp því ferðamönnum frá þessum tveimur frændþjóðum fer fækkandi. Frakkar, sem eru fjórði fjölmennasti hópurinn, hafa einnig dregið úr Íslandsferðum fyrstu þrjá mánuði ársins en þar sem þeir eru mjög fjölmennir yfir sumarmánuðina má búast við að Frakkar haldi fjórða sætinu í ár en missi það, að öllu óbreyttu, til Kínverja á því næsta.

Reynst vel að hafa íslenskan sérfræðing í Kína

Undanfarna sex mánuði hafa 22 þúsund Kínverjar innritað sig í flug í Leifsstöð en þeir voru tæplega 12 þúsund á sama tíma sl. vetur. Það hefur s.s. orðið nærri því tvöföldun í vetrarferðum Kínverja hingað til lands og að sögn Hildar Ómarsdóttur, markaðsstjóra Icelandair hótelanna, hefur einmitt verið lögð lykiláhersla á þá árstíð í kynningum fyrirtækisins á Íslandsferðum í Kína. „Icelandair hótel eru í mikilli markaðssókn á Kínamarkaði, í góðri samvinnu við systurfélög okkar Icelandair og Iceland Travel. Lykiláhersla er lögð á að selja vetur og ná til betur borgandi markhópa en áður frá Kína, en þeir hafa fram til þessa verið „low budget” hópar sem ferðast helst yfir sumarið.” Hildur segir það hafa reynst fyrirtækjunum afar vel að hafa í Kína starfandi Íslending sem tali kínversku og búi yfir mikilli þekkingu á þeim markaði.

Vilja sloppa, inniskó og baðkör

Þarfir ferðamanna frá Asíu eru oft aðrar en þeirra sem koma frá Vesturlöndum og segir Hildur að á Icelandair hótelunum sé starfandi kínverskur matreiðslumaður og þar boðið upp á sérstakan asískan morgunmat. „Asíumarkaður gerir kröfu um baðkör á hótelherbergjum og er tekið tillit til þess við hönnun nýrra herbergja á okkar hótelum,” bætir hún við.
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að á gististöðum hótelkeðjunnar sé víða að finna kínverska starfsmenn og það sé mikill kostur þegar kemur að þjónustu við þennan hóp. Kínversku gestum stendur svo til boða sérstakur hrísgrjónagrautur og jafnframt eru alltaf inniskór og baðsloppar á herbergjum kínversku gestanna.

Ekkert beint flug

Ísland er langt frá því eina landið sem kínverskum ferðalöngum fjölgar hratt en eftirspurn eftir utanlandsferðum hefur aukist gífurlega í Kína síðustu ár. Framboð á millilandaflugi þaðan hefur því aukist og frá helstu flugvöllum Norðurlanda er boðið upp á beint flug til Kína. Ísland hefur hins vegar ekki ennþá komist á korti hjá kínverskum flugvélögum og ekkert íslenskt hefur bætt Kína við leiðakerfi sitt þó nýjar breiðþotur Icelandair og WOW air geta flogið svona langað leið. Fókusinn hjá íslensku félögunum er áfram á ferðir milli N-Ameríku og Evrópu