Margfaldur munur á gjaldi símafyrirtækjanna fyrir netsamband í útlöndum

Sá sem notar farsímann sinn töluvert í utanlandsferðinni getur sparað sér mörg þúsund krónur á dag með því að velja sér hentugustu þjónustuna.

simi jordan mcqueen

Snjallsímar eru ljómandi góðir ferðafélagar. Þeir geta til að mynda leitt okkur áfram um ókunnugar slóðir, fundið áhugaverða staði, haldið utan um ferðagögnin og þeir gera okkur kleift að deila ferðalaginu með fólkinu heima. Ókosturinn er hins vegar sá að til þess að geta nýtt kosti símans til fulls þá þarf hann að komast í netsamband og það er í flestum tilfellum dýrt þó verðið hafi farið hratt lækkandi síðustu ár, m.a. vegna verðþaks Evrópusambandsins.

Fjórtánfaldur verðmunur fyrir stórnotanda

Símafyrirtækin bjóða líka í auknum mæli sérstakar þjónustuleiðir með áherslu á símnotkun í útlöndum og ganga þær nærri allar út á að notandinn borgi fast daggjald gegn því að fá lægra verð á símtölum, textasendingum og gagnanotkun. Verðið, gildissvæðin og skilmálar pakkanna er hins vegar mjög ólíkir og sérstaklega þegar kemur að netsambandinu sem er einmitt forsenda þess að geta nýtt farsímann í annað en að hringja. Einn pakki sker sig þó úr en það er One Traveller hjá Vodafone því þar eru 500 megabæti innifalin í daggjaldinu (690 kr) sem er miklu meira gagnamagn en í öðrum ferðapökkum þar sem mörkin liggja við 10 til 25MB. Af þessum sökum er One Traveller frá Vodafone mun hagstæðari kostur en aðrar sambærilegar þjónustur á íslenska símamarkaðnum þegar kemur að gagnamagni í útlöndum. Verðmunurinn er minnstur þegar netnotkunin er lítil en getur orðið margfaldur þegar notkunin eykst eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Þannig kostar 100 megabæta notkun yfir daginn minnst með Vodafone One Traveller eða 690 kr. en hæsta verðið er 2.930 krónur í ferðapakka 365. Stórnotandi sem þarf 750MB yfir daginn greiðir hins vegar nærri 19 þúsund krónur hjá 365 en 1.380 krónur með Vodafone One Traveller. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verðinu er því nærri fjórtánfaldur.
Í þessum samanburði Túrista er aðeins litið til verðs á gagnanotkun í ferðapökkum símafyrirtækjanna. Hjá Hringdu er þess háttar þjónustuleið ekki í boði. Þess ber að geta að aðeins þeir sem eru með farsíma- og internetþjónustu hjá Vodafone fá One Traveller pakkann. Hinar þjónustuleiðirinar eru opnar fyrir alla viðskiptavini viðkomandi símafyrirtækja.